Feeds:
Færslur
Athugasemdir

Það var miðvikudagskvöld og allir heima. Raunvísindamaðurinn hafði komið við í ísbúð á leiðinni heim og keypt ís öllum til mikillar gleði. Sérstaklega var Georg ánægður enda hafði móðir hans bannað honum að borða ís í æsku vegna þess að hann gæti fengið tannkul, hann eyddi því mörgum hræðilegum stundum horfandi á önnur börn borða ís á meðan móðir hans gaf honum rófur til að sjúga, en aftur að kvöldinu.
Eftir ísátið ætluðu þeir félagar svo að taka spilakvöld, spila allskyns borðspil og enda jafnvel í karaoke keppni í Playstation tölvunni. Áður en það gerðist hóf Georg hins vegar smá rökræður sem þróuðust út í rugl, eins og svo oft áður.

Georg: Ég tók mér veikindadag í dag…

Raunvísindamaðurinn grípur inn í: Hvað meinarðu? Varstu veikur?

Georg: Nei, maður á tvo veikindadaga í mánuði og þar sem ég verð aldrei veikur og það er langt liðið á mánuðinn þá ákvað ég að taka annan þeirra núna og hinn í lok mánaðarins.

Guðfræðingurinn hneykslaður: Nú hringi ég í móður þína og spyr hvers konar kristilegt uppeldi, eða réttara sagt skort á því hún hafi lagt til málanna í þinni æsku.

Raunvísindamaðurinn einnig hneykslaður: En hvað ef þú verður einhvern tímann alvarlega veikur Georg?

Georg: Það er það sem ég er að segja ykkur. Ég hef aldrei orðið veikur hvað þá alvarlega. Ég hef t.d. ekki gubbað síðan ég var 8 ára. (Ánægður með sjálfan sig) Já, ég tek mína sénsa í lífinu.

(Hinir mjög undrandi á öllu saman)

Stjórnmálafræðingurinn: Sénsa í lífinu, segir maðurinn sem telur sig vera óheppnasta mann í heiminum. Það að þú hafir aldrei orðið veikur þýðir ekki að það geti ekki gerst, frekar en það hefur aldrei gerst að svartur maður hafi orðið forseti Bandaríkjanna.

Georg hugsar sig um en setur svo upp ,,mér er skítsama” svip: En allavegana, ég tók mér veikindadag í dag… (treður í sig ís) og sat hérna heima og var að horfa á Travel Channel. Þar var einhver kona að ferðast á milli hátíða um alla Evrópu og þá velti ég því fyrir mér hvers vegna við höfum enga svona skemmtilega hátið.

Guðfræðingurinn: Við höfum nú kristilegar hátíðir, bæði jólin og páskana.

Raunvísindamaðurinn: Hvorug þeirra eru kristin hátíð, jólin eru heiðin hátíð og ef þú vilt halda upp á kristna hátíð sem fer fram á sama tíma þá heitir hún Kristsmessa. Sama á við um páskana, sú hátíð var heiðin áður en…

Georg orðinn pirraður og þreyttur á þessum stöðuga núningi á milli hins trúaða og hinna ótrúuðu og öskrar: Má ég klára?!?

(Hinir líta undarandi á hann í þögninni)

Georg pirraður: Það sem ég vildi sagt hafa er einmitt fyrir utan trúarlegar hátíðir og hvers kyns alþjóðlegar hátíðir.

Stjórnmálafræðingurinn spenntur: Eins og hvað?

Georg: Eins og þessi kona, hún fór í spænskan smábæ og þar var hátíð sem snérist um það að kasta tómötum í annað fólk…

Stjórnmálafræðingurinn: Þær eru raunar tvær. La Tomatina í Valenciu og í smábænum Bunyol.

Georg ennþá aðeins pirraður: Úúú! Mister know it all…

Georg aftur: Þetta voru ansi margar hátíðir og þær voru tengdar sögu landanna, samanber þessi tómataslagur. Af hverju er engin svona hátíð á Íslandi. Ætlið þið að segja mér að rúmlega 1000 ára saga landsins sé svo ómerkileg að það sé engin alvöru íslensk gleðihátíð og að það sé þá ekki hægt að búa til álíka skemmtilega hátíð?

(Fræðimennirnir hugsa sig um)

Heimspekingurinn: Þetta er mjög áhugaverð spurning Georg… Hvað með Gay Pride?

Stjórnmálafræðingurinn: Það er alþjóðleg minnihlutahátíð. (Segir svo afsakandi) En auðvitað fyrir alla sú hátíð og…

Guðfræðingurinn grípur inn í: Við höfum auðvitað þorrablót.

Raunvísindamaðurinn brosir: Var Georg ekki að tala um skemmtilega hátíð.

Guðfræðingurinn: Jú, og þetta er sannarlega skemmtileg hátíð. Á þorranum minnumst við bæði menningu fyrir kristintöku og þess hvernig þjóðin lifði af í harðindum og sýnum þar með að þjóðin er okkur í blóð borin.

Stjórnmálafræðingurinn hneykslaður: Með því að borða úldinn mat? Ég held að við ættum ekkert að vera að minnast þess hvað við vorum einu sinni ömurlega fátæk og fáfróð þjóð… og svo er þjóðin ekki okkur í blóð borin, þjóðir eru sögulega ákvarðaðar… þær eru ekki eilíft fyrirbæri og snúast aðallega um hagsmuni einstaklinganna innan þess. Um leið og hagsmunir einstaklinganna…

Guðfræðingurinn: Þvílíkt rugl! Þjóðin og sérstaklega hin íslenska þjóð saman stendur af trúnni, tungumálinu, hefðunum og…

Stjórnmálafræðingurinn: Þú veist sjálfur að þetta er rugl í þér og nefnir eingöngu Ísland vegna þess að önnur dæmi ganga einfaldlega ekki upp. Hvað ef að fólksflutningar halda áfram frá landsbygðinni og á austfjörðum eða vestfjörðum, þá verður mikil meirihluti íbúa nýbúar, segjum Pólverjar.
Hvað ef að þessu fólki með íslenskan ríkisborgararétt finnst hagsmunum þess ekki best borgið með því að vera partur af íslenska ríkinu eða hinni íslensku þjóð? Hefur það þá ekki fullan rétt til að lýsa yfir sjálfstæði ákveðins landssvæðis?

Guðfræðingurinn trúir ekki eiginn eyrum og blöskrar: Þvílík della! Þetta er svo þvílíkt fjarstæðukennt að það nær ekki nokkurri átt. Ætlar þú að…

Georg pirraður og öskrar: Aaaahhhh! Halló! Á þessi núningur engan endi að taka! Hvað með spurninguna?

Heimspekingurinn grípur snöggt inn í svo að menn haldi ekki áfram að rökræða: Ég sé ekki í spilunum hvernig tengja má eitthvað álíka og tómataslag við sögu landsins…

Heimspekingurinn fær skyndilega kaldhæðna hugmynd: En við gætum búið til einhvers konar kapítalíska veislu og haft hana á 7.júlí, daginn sem bandaríski herinn gekk hér á land og breytti okkur í sykursæt svín. Ég sé fyrir mér að fólk kæmi saman á Laugarvegi og þar myndu bílar frá sælgætisgerðum landsins sprauta súkkulaði, karamellu og lakkrís yfir lýðinn.

(Hinir hlæja vel að þessu)

Georg sleikir innan úr ísboxinu og áttar sig ekki á kaldhæðninni: Jafnvel ís?

Stjórnmálafræðingurinn: Mér líst mjög vel á þessa hugmynd um kapítalíska veislu. Hún yrði þá líka á milli tveggja annarra kapítalískra veislna… páskanna og jólanna. Ég sé fyrir mér að Nóa Siríus gerði risastóran súkkulaði Jesú a la Tom Waits sem væri á trukknum sem þeir keyrðu til að sprauta á fólkið.

(Raunvísindamaðurinn, Georg og Heimspekingurinn hlæja að Guðfræðingnum sem stendur fjólublár af reiði)

Guðfræðingurinn brjálaður:Í nafni Guðs almáttugs nú hættir þetta djöfulsins einelti! Það er löngu vitað að það voru heiðingjarnir sem héldu í þessar nautnahefðir!

Stjórnmálafræðingurinn: Enda sérðu að Íslendingar eru miklu fremur trúlausir en trúaðir, sitja heima á jólum og páskum og troða í sig í stað þess að fara í kirkju.

Raunvísindamaðurinn grípur fram fyrir hendurnar á Guðfræðingnum sem vill svara fyrir sig en veit ekki hvernig: Ég væri reyndar til í að sjá eitt, sökum nafnsins Ísland og að Georg minntist á ís að hér yrði haldin snjókastshátíð. Það væri hægt að hafa hana í júli og flytja hreinlega snjó úr jöklunum og nota þessar snjóvélar sem standa ónotaðar í átta mánuði af tólf til að búa til snjó. Þetta myndi pottþétt fjölga ferðamönnum.

Georg skelkaður en vill ekki sýna hræðslu: En yrði ekki mikið um slys? Fólk að fá snjóbolta í augun og einhverjir aumingjar að kaffæra mann? (Æsir sig)
Ég á mjög slæmar minningar úr æsku af því að vera kæffærður… það var orðið þannig að ég fékk að vera inni í frímínútum vegna þess að ég kom alltaf inn allur út í snjó, með bláa putta og varir. Kennarinn áttaði sig á því eftir árið að einkunirnar mínar í stærðfræði höfðu fallið úr 9 í 5,5 vegna þess að ég missti alltaf af fyrsta hálftímanum við það að þurrka mér inni á baði og að ná eðlilegum líkamshita. Ég náði mér aldrei aftur almennilega á strik í stærðfræði eftir það og í stað þess að verða verkfræðingur eins og mig dreymdi um þá er ég að vinna á lager.

(Strákarnir hlæja en hughreysta svo Georg með faðmlagi)

Raunvísindamaðurinn: En þetta hefur greinilega haft þau áhrif á ónæmikerfið í þér að þú hefur ekki orðið veikur síðan og getur tekið þér tvo ,,veikindadaga” í mánuði!

Georg er gráti næst, hugsar um þetta og brosir svo: Já, það er hárrétt. Hver hefði trúað því að eineltið gerði mig sterkari?

Raunvísindamaðurinn sposkur á svip: Kannski gamalkunna máltækið, það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari.

Raunvísindamaðurinn aftur: En þú þarft varla að hafa áhyggjur af því að fólk slasist á snjókastshátíðinni. Það yrði með skíðagleraugu og… (í hæðnistón) sjálfur hefðir þú Jonna með þér svo að einhverjir aumingjar myndu ekki kaffæra þig.

Geeorg ósannfærður og skelkaður vegna æsku sinnar: Já, ætli það ekki. Það eru samt pottþétt alltaf einhverjir pönkarar sem setja steina í snjóboltana.

Stjórnmálafræðingurinn: Pönkarar? Ert þú fastur á 8.áratugnum?

Stjórnmálafræðingurinn horfir á Georg lítinn í sér: Æi, ertu bara ennþá lítill strákur sem ert hræddur við pönkarana? Af því að þeir reykja og hrækja?

Georg gráti næst: Þetta voru hættulegir strákar! Maður vissi aldrei hvað þeir myndu gera, þeir voru eins og hundar sem maður getur ekki áttað sig á þegar þeir nálgast, hvort þeir muni ganga framhjá, þefa af manni eða bíta mann. Pönkararnir voru eins, hræktu hvorn á annan og hlógu, settu lím í hárið á sér og pissuðu inn í skólastofur – enginn vissi hvað þeir myndu gera næst, ENGINN!

Heimspekingurinn reynir að róa Georg með að afvegaleiða hann: En ykkur dettur ekkert annað í hug?

Guðfræðingurinn: Það er svo margt þjóðlegt sem mætti nýta enda menning okkar á heimsmælikvarða ef ekki hreinlega yfirburða.

Stjórnmálafræðingurinn: Já, við gætum haldið einhvers konar aría nasistahátíð og fagnað þessum menningaryfirburðum.

Guðfræðingurinn bakkar: Nei, ég meinti það nú ekki þannig. Það ber auðvitað að virða aðra menningu um leið og maður fagnar sinni eigin (meinar ekki nokkuð af því sem hann segir).

Georg: Hvað með fyrsta kjörna kvenforsetann?

Guðfræðingurinn djúpraddaður og bendir á Georg: Varaðu þig nú á að koma ekki með vanhugsaðan brandara á kostnað frænku minnar!

Georg: Nei, í alvörunni – er það ekki eitthvað sem má nýta?

Heimspekingurinn: Á hvaða hátt þá?

Stjórnmálafræðingurinn: Kraftajötnar gætu t.d. farið á stórum trukkum niður Laugarveginn og kastað konum íklæddum Fjallkonubúningnum í fólk…

(Hinir stara á hann hneykslaðir)

Stjórnmálafræðingurinn áttar sig: Aahh! Aðeins yfir strikið?

(Hinir kinka kolli)

Heimspekingurinn með sína vinstri mennsku: Hvað með Laxness? Einhverja hátíð fyrir Nóbelsskáldið.

Guðfræðingurinn glottir og drepur hugmyndina í fæðingu: Bókabrennur? Það er ekki vitlaust!

Stjórnmálafræðingurinn hneykslaður: Dettur okkur í alvörunni ekkert sniðugt í hug nema kapítalíska hátíð. Erum við virkilega að fara að detta niður á þá hugmynd að með tímanum breytist þorrablót hreinlega í risastóran matarslag þar sem allir eru þaktir hrútspungum, hákarli, rófumauki og þess háttar viðbjóði frá toppi til ilja?

Hinir í ósamstæðum kór: Reyndar er það ekki svo fráleit hugmynd?

Guðfræðingurinn: Þannig gæti hefð sem er að deyja út með kynslóðunum viðhaldið sér á nýjan hátt…

Heimspekingurinn heldur áfram: PoppTV kynslóðin með sína ógeðisdrykki og áskoranir fengju ógeðishátíð fyrir sig…

Raunvísindamaðurinn botnar þetta: Og gamla fólkið gæti staðið til hliðar og kjamsað á matnum og hlegið yfir vitleysunni.

Georg hlæjandi: Snilld! Hvenær eigum við að bera þetta undir Alþingi?

(Strákarnir springa úr hlátri)

Georg: Hvað? Þið eruð alltaf að fá mjög góðar hugmyndir sem gætu gengið snilldarlega upp en gerið aldrei neitt úr þeim. (Bendir á þá reiður) Hvernig væri að þið menntafíflin settust niður og skrifuðuð bréf og sendu það á mínu nafni til Alþingis.

Hinir í kór: Allt í lagi!

Stjórnmálafræðingurinn: Ég held að það sé samt betra að ég stíli það og sendi á borgarfulltrúana okkar.

Þeir settust því niður í sameiningu og sömdu langt og ítarlegt bréf þar sem þessi forsaga sem hér hefur verið sögð var rakin ítarlega með tilvísun í aðrar erlendar hátíðir. Bréfið var stílað á alla borgarfulltrúana en sennilega hefur efni þess beðið skaða af hinum miklu kjánalegu breytingum sem átt hafa sér stað hjá guð má vita hversu mörgum meirihlutum, því ekkert bólar á þessari yndislegu hugmynd sem gæti haldið annars ógeðsfelldri hefð sem felst í þorrablótum á lífi.

Þrándur sleikir sjálfan sig og kveður í bili.

Sæl öll enn og aftur!

Ég sit uppi í gluggakistu inni í stofu kommúnunnar á sunnudagseftirmiðdegi. Það er snjór úti og rok og íbúarnir fimm allir heima. Fjórir þeirra sitja inni í stofu að spjalla á meðan Seinfeld rúllar í sjónvarpinu. Heimspekingurinn, sem hefur séð alla þættina og nægir að heyra talið til að átta sig á gangi mála, situr inni í eldhúsi með sunnudagsmoggann þegar hann skyndilega hefur upp rausn sína og truflar þar með ómerkilegt hjal þeirra í stofunni.

Heimspekingurinn: Djöfulsins rugl er þetta!

Stjórnmálafræðingurinn: Hvað nú?

Heimspekingurinn: Eruð þið búnir að lesa þessa grein um Guðna Ágústsson í Morgunblaðinu?

Stjórnmálafræðingurinn og Raunvísindamaðurinn í kór fremur pirraðir: Já!

Guðfræðingurinn: Nei, hvað segir hann Guðni minn?

Heimspekingurinn lítur upp undrandi: Guðni þinn? Ertu ekki Sjálfstæðismaður?

Guðfræðingurinn lítur uppí loft hugsi: Jú svona að mestu en mér þykir ákaflega vænt um Guðna Ágústsson og í rauninni Framsóknarflokkinn að mestu. Þetta er fólk sem stendur fyrir gömul og góð íslensk gildi – sannkölluð íhaldsparadís. Þeir hafa stutt dyggilega við bakið á bændum og varið Þjóðkirkjuna gegn ágangi…

Raunvísindamaðurinn grípur inn í pirraður: Sem sagt varið hagsmuni minnihlutahópa?

Guðfræðingurinn reiður: 90% þjóðarinnar eru kristnir…

Raunvísindamaðurinn fer í sama ham: Þvílíkt kjaftæði. Samkvæmt rannsóknum sem…

Stjórnmálafræðingurinn: Æi, ætlið þið að fara að ræða þetta enn eina ferðina? Þetta er mjög einfalt. Framsóknarflokkurinn hefur nú í áratugi verið valdaflokkur, þ.e. reynir að viðhalda völdum og hefur ekkert fram að færa nema að verja hagsmuni fjölskyldna, vina og minnihlutahópa á borð við bændur sem kemur niður á almenningi. Þessi sleikjuskapur um kristin gildi er innantóm froða til að leita til nýrra kjósenda í þessari kreppu flokksins. Sannið til.

Guðfræðingurinn ósáttur: Já, það kemur í ljós…

Raunvísindamaðurinn reiður og ekki alveg tilbúinn að hætta: Já, þvílíkt samansafn af mannlegum úrhrökum! Sannkallaður fótasveppur á íslensku samfélagi, enda bara hálfvitar sem kjósa þennan flokk!

Georg hissa og smá sár: Ég kaus nú Framsóknarflokkinn í síðustu tveimur kosningum. Ég var niðri í bæ og þeir buðu mér pylsur, blöðrur og kók – svo að ég kaus þá.

(Hinir horfa á hann með fyrirlitningarsvip og þegja)

Guðfræðingurinn rífur þögnina: En hvað er Guðni að segja í þessu viðtali minn kæri?

Heimspekingurinn gengur með moggann inn í stofu og segir: Æi, hann er að væla undan stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í mörgum málefnum, sem er reyndar hárrétt en er hann búinn að gleyma hvað Framsóknarflokkurinn gerði síðustu 12 árin þar á undan.

Guðfræðingurinn: Það var nú afar farsæl ríkisstjórn sem gerði margt gott.

Hinir fræðimennirnir í kór: Ertu ekki að grínast?!?

Guðfræðingurinn hlær: Jú, þetta var samansafn af hálfvitum en þægilegt fyrir Flokkinn að geta gert nánast hvað sem er án þess að Framsókn mótmælti.

Heimspekingurinn: Já fokk hvað þetta var orðið þreytt strax eftir innan við fjögur ár og þessi síðustu átta voru eins og eilífð að líða. Menn skítandi á sig hægri vinstri og mesta skömmin af mörgum að sjálfsögðu Íraksstríðið…

Stjórnmálafræðingurinn: Ekki einu sinni byrja á allri upptalningunni og hvað þá Íraksstríðinu.

Raunvísindamaðurinn: Já þetta eru siðblindar skepnur.

Georg: Ég heyrði reyndar frá vinkonu hennar mömmu að þetta samstarf hefði fengið svo mikið á Halldór Ásgrímsson að hann hafi þurft að fara í meðferð?

Hinir spenntir í kór: Ha? Getur það verið?

Georg ánægur með að geta loksins miðlað ,,upplýsingum”: Já, það var víst ástæðan fyrir því að hann hætti. Gamli góði Vogur.

Stjórnmálafræðingurinn: Já, það kæmi ekki á óvart. Munið þið ekki líka eftir viðtalinu við Árna Magnússon þar sem hann sagði að hann hefði verið í þvílíku rugli sem ungur maður…

Georg grípur inn í: Bíddu Árna Magnússon, voðalega kannast ég við það nafn.

(Heimspekingurinn verður skömmustulegur)

Georg verður skyndilega fyrir uppljómun og snýr sér að Heimspekingnum og bendir á hann: Já er það ekki gaurinn sem ég hitti þig einu sinni með?

Guðfræðingurinn, Stjórnmálafræðingurinn og Raunvísindamaðurinn spenntir og hissa: Ha? Hvar? hvenær?

Heimspekingurinn: Nei þú ert eitthvað að ruglast Georg?

Heimspekingurinn horfir á Georg með galopinn augun og reynir að þagga niður í honum en Georg nær því ekki.

Georg: Nei, manstu ég hitti ykkur fyrir framan… hérna fyrir framan…

Heimspekingurinn grípur inní pirraður: OK, OK stoppaðu.

Guðfræðingurinn, Stjórnmálafræðingurinn og Raunvísindamaðurinn: Nei, Georg haltu áfram! Komdu með söguna…

Heimspekingurinn grípur inn í niðurbrotinn og leiður í röddinni: Nei, ég skal þá segja hvað gerðist.

(Það hlakkar í hinum, en svo er dauðaþögn og drengirnir hlusta með hámarkseinbeitingu á Heimspekinginn)

Heimspekingurinn breytist í hinn persónuleikann… Listamanninn: Það var þannig að ég hafði verið að date-a eina yndislega fallega snót sem ég gat séð fyrir mér að yrði eiginkona mín. En eitt föstudags- eða laugardagskvöld kom ég svo að henni þar sem hún var að kyssa einhvern subbulega bronsaðan freyðivínsapa fyrir framan Óliver.
Ég varð svo miður mín að ég ákvað að sturta í mig áfengi og halda aumkunarverðri leið minni einn áfram út í óvissuna – mér fannst þetta vera mestu vonbrigði lífs míns og hugmyndir af ljóðum hrúguðust í huga mér á meðan að ég hélt áfram að hella í mig.
Ég var svo vakinn morguninn eftir þar sem ég lá á bekk búinn að æla á sjálfan mig og gangstéttina á milli Cafe Paris og Alþingishúsins. Þetta reynist vera Árni Magnússon þingmaður með kaffibolla og bauðst til þess að aðstoða mig, meðal annars með húsaskjóli og pening fyrir mat – hélt greinilega að ég væri á götunni… eehh áður en ég held áfram vil ég taka það fram að á þessum tímapunkti er ég ennþá blindfullur og hálf rænulaus OK.

(Þeir kinka kolli spenntir)

Heimspekingurinn aftur: Ég muldra eitthvað um hvort að hann geti skutlað mér heim og Árni samþykkir það, svo framarlega sem hann geti komið við á einum stað. Ég geng því með honum og fer inn í bílinn hans þar sem ég drepst aftur og vakna ekki fyrr en bíllinn er stöðvaður við hlið stórar byggingar og Árni biður mig að koma með sér inn. Ég átta mig alls ekki á því hvar við erum, enda upptekinn af því að halda jafnvægi og geri ráð fyrir að hann ætli að koma við á skrifstofunni sinni og treysti mér ekki einum í bílnum sínum.
Þegar ég kem svo inn renna á mig tvær grímur enda taka við okkur tvær konur í einhvers konar búningum og vísa okkur inn í sal. Þegar að hurðinni er upplokið átta ég mig á því að ég er kominn inn í kirkju og ekki hvaða kirkju sem er því þarna er einhver svaka gospelveisla í gangi og fólk talandi tungum, syngjandi og dansandi. Árni leiðir mig inn og vegna þess hversu ég var upptekinn af þessum fíflagangi í kirkjugestum að þá ranka ég ekki almennilega við mér fyrr en við erum komnir upp á altari eða einhvers konar svið. Skyndilega er komið aftan að mér, ég klæddur í hvítan kufl, vatnsgusu hellt yfir höfuðið á mér og presturinn tjáir mér og safnaðargestum að því beri að fagna að glötuð sál hafi nú verið endurheimt í gegnum skírn. Ég rýk þá auðvitað út enda gjörsamlega misboðið og Árni á eftir mér, það er þá sem að ég rekst á Georg fyrir framan kirkju Fíladelfíu safnaðarins.

(Georg hlæjandi og hinir gjörsamlega með kjálkann í jörðinni nánast í losti)

(löng þögn)

Raunvísindamaðurinn brjálaður: Þetta trúaða fólk hefur enga siðferðiskennd. Þvílíkir loddarar.

Guðfræðingurinn: Fíladelfía er ekki hluti af Þjóðkirkjunni enda myndi svona lagað aldrei viðgangast þar. En þetta er það sem mun gerast í auknum mæli ef við skiljum að ríki og…

Stjórnmálafræðingurinn grípur inn í enda hefur hann engan áhuga á að heyra trúboðann tala: Og hvað gerðir þú eiginlega?

Heimspekingurinn alvarlegur: Ég öskraði auðvitað í mínu annarlega ástandi á Árna hvað í andskotanum hann hafi verið að pæla að draga mig inn í kirkju og láta skíra mig og rauk svo með þessum hobbita burt (lítur á Georg reiður), sem lofaði að segja ekki frá þessu!

Georg hallar sér aftur í stólinn með spenntar greipar fyrir aftan hnakka og segir sjálfsánægður: Þessi saga var búinn að vera alltof lengi ofan í skúffu og of góð til að vera þar mikið lengur – ég var reyndar búinn að steingleyma henni.

Heimspekingurinn hættir að stara drápsaugnaráði á Georg og snýr sér að hinum: En ég fór svo reiður á mánudeginum og ræddi við Árna sem afsakaði sig í bak og fyrir og sagðist hafa haldið… eins og ég sagði fyrr… að ég væri útigangsmaður og að hann hafi aðeins viljað hjálpa mér enda hafi trúin bjargað honum á sínum tíma…

Raunvísindamaðurinn: Puff…

Heimspekingurinn heldur áfram: Hann kom svo með sáttartillögu sem ég gaf loforð um að svíkja ekki (lítur á Georg með geðveikis augnaráði, svo á hópinn allan og bendir á þá) og ég vil taka það skýrt fram að þessi saga yfirgefur ekki þennan fimm manna hóp. Ég á eitthvað á ykkur alla og ef að þessi saga fer út fyrir hópinn að þá dreg ég ykkur alla niður með mér í svaðið. Skilið?!?

Georg, Stjórnmálafræðingurinn og Guðfræðingurinn kinka kolli skömmustulegir en Raunvísindamaðurinn er hugsi og spyr svo glottandi: Bíddu, hvað hefur þú á mig?

Heimspekingurinn glottir á móti: Koma orðin ,,Rakel” og ,,Rakvél” einhverju af stað í höfðinu á þér?

Raunvísindamaðurinn roðnar: Já, við skulum halda þessari sögu innan hópsins.

Þeir horfa hvorn á annan og kinka kolli en halda svo áfram að horfa á Seinfeld á meðan snjónum kyngir niður fyrir framan stofugluggann. Þannig kveð ég ykkur í bili og vona að þið njótið einnig næstu sögu af strákunum okkar í kommúnunni. Mjá, Mjá, Mjá.

Góðan daginn!

Það var fallegur fimmtudagur í maí og heimspekingurinn/listamaðurinn stóð einn við trönur sem hann hafði einhvern veginn komið fyrir í ofhlaðinni stofunni. Hann var í miðjum klíðum við að skapa grunn fyrir sjálfsmynd þegar síminn skyndilega hóf að væla. Útataður og einbeittur leit hann í kringum sig og neitaði að trúa því að enginn annar væri heima. Heimspekingurinn æstist við hverja hringingu uns hann lagði frá sér pensilinn, stökk af stað og tók upp símtólið.

Heimspekingurinn með hraði: Halló!

Kunnugleg rödd: Er þetta listamaðurinn?

Heimspekingurinn hugsi: Já…

Þögn

Kunnugleg rödd: Þekkir þú ekki röddina?

Heimspekingurinn afskandi: Jú, en hljóðið er hálfslæmt.

Kunnugleg rödd: Þetta er Jósep (smá þögn)… kenndur við stálmanninn.

Heimspekingurinn hress: Blessaður!

Jósep: Hvað er að frétta?

Heimspekingurinn: Bara, þú veist… ekkert sérstakt – ég var einmitt að mála þegar þú hringdir.

Jósep: OK, ertu búinn með Sovétmyndina sem ég pantaði?

Heimspekingurinn: Aaa! Ég var búinn að steingleyma henni. Það er næsta verk. En hvað með þig, hvað er að frétta?

Jósep: Svo sem ekkert sérstakt, ég var bara að keyra Laugarveginn og sá þá hinn trúaða sambýling þinn leiða annan mann.

Heimspekingurinn hissa: Ertu að tala um Guðfræðinginn?

Jósep: Já.

Heimspekingurinn hlæjandi: Nei, það getur ekki verið.

Jósep: Jú ég get svo svarið það við gröf Stalíns. Ég sá hann tvisvar og er handviss um að þetta var hann… og það sem meira er (smá þögn) …er að ég er nokkuð vissum að hann var að leiða Bergþór Pálsson.

Heimspekingurinn hlæjandi: Hahaha! Djöfulsins rugl.

Jósep grafalvarlegur í röddinni: Ég get svo svarið það að ég er nokkuð vissum að þetta var hann.

Heimspekingurinn og Jósep halda áfram að ræða saman í símann um margt merkilegt. Eftir símtalið heldur Heimspekingurinn áfram að mála og er löngu búinn að gleyma efni þess þegar að sambýlingarnir rata heim hver á fætur öðrum. Meira gerist ekki þennan dag.

Tveimur dögum síðar hringir síminn um kvöldmatarleytið og Raunvísindamaðurinn verður fyrstur til að grípa hann af heimilismönnunum.

Raunvísindamaðurinn með djúpri röddu: Raunvísindamaðurinn hér, hver er þar?

Jonni: Bleddssaður! Er Georg þarna? Ertu búinn að lesa DV? Ertu búinn að sjá myndirnar?

Raunvísindamaðurinn: Sæll. Eina spurningu í einu.

Jonni: Ertu búinn að lesa DV? Hvað er að frétta?

Raunvísindamaðurinn: Nei, hvað er í þeim sorpsnepli?

Jonni: Mynd af tveimur mönnum að leiðast undir fyrirsögninni ,,Bergþór Pálsson búinn að finna ástina í lífi sínu?”

Raunvísindamaðurinn nær ekki samhenginu: Er það frétt? Frábært?

Jonni æstur en hlæjandi: Nei þú skilur ekki (blaðaskrjáfur), það er stór mynd í blaðinu af Bergþóri Pálssyni að leiða Guðfræðinginn. Hahaha!

Raunvísindamaðurinn snýr sér að matarborðinu hissa með hneykslunartón í röddinni: Hvað segir þú Jonni, er mynd í DV af Guðfræðingnum að leiða Berþór Pálsson?

Guðfræðingurinn frussar hálfmettaðri mjólk, kartöflumús og kjötbollum út um munninn og nefið og hóstar sig fjólubláan á meðan viðstaddir öskra af hlátri.

Guðfræðingurinn hálf hóstandi segir hátt: Þetta er rugl, algjört rugl, núna hafa þeir gengið of langt.

Raunvísindamaðurinn: Ég heyri í þér seinna Jonni, Georg hringir í þig á eftir.
Raunvísindamaðurinn skellir á Jonna til að missa ekki af einu augnabliki í komandi samræðum.

Heimspekingurinn: Já…. Jósep hringdi í gær og sagði nákvæmlega sömu sögu, var búinn að gleyma því.

Stjórnmálafræðingurinn horfir brosandi á Guðfræðinginn: Mig langar til að sjá þig snúa þig útúr þessu.

Guðfræðingurinn sem búinn er að jafna sig á hóstakastinu segir reiður: Helvítis DV!

(Hugsar sig um í smástund og byrjar svo).

Guðfræðingurinn: Málið er það að í gær, nei í fyrradag fékk ég símtal. Á hinum endanum var frænka mín sem býr á Grundarfirði og vildi biðja mig um greiða. Hún og maðurinn hennar eiga 35 ára gamlann son með downsyndrom sem býr á Sólheimum og er einnig með vott af einhverfu. Hann hafði eyðilagt síðustu sparibuxurnar sínar og þurfti að komast til Reykjavíkur í verslunarleiðangur. Sem miskunasami samverjinn sem ég er ákvað ég að gera frænku minni þann greiða að sjá um leiðangurinn þrátt fyrir að hafa ekki séð þennan frænda minn í örugglega 10-15 ár. Ég mætti svo upp á þennan stórbrotna stað sem Sólheimar eru og ræddi þar við starfsmenn um hvernig best væri að hátta þessu ferðalagi. Hefði ég vitað hversu einhverfur hann væri þá hefði ég sennilega ekki tekið verkefnið að mér því að starfsmennirnir sögðu mér að ég þyrfti að leiða hann í gegnum búðirnar í orðsins fyllstu merkingu. Þegar ég svo loksins hitti þennan frænda minn þá snarbregður mér því að hann gæti verið tvíburabróðir Bergþórs Pálssonar…

Georg grípur inn í: Er hann Bergþór mongólíti?

Hinir hlæja mikið

Heimspekingurinn: Góð spurning Georg.

Stjórnmálafræðingurinn: Þannig að þú ert í rauninni að segja beint út að Bergþór Pálsson eins og Georg orðar það svo ópólitískt rétt, líti út eins og mongólíti?

Guðfræðingurinn: Það eru þín orð, en áfram með söguna. Þarna er ég staddur og get ekki farið að bakka út vegna þess að þessi ,,sérstaki” frændi minn líti fremur út eins og Bergþór Pálsson en maður með downsyndrom. Við keyrum því til Reykjavíkur og förum í búðir og hann velur sér sjálfur þessar huggulegu flíkur. Allan tímann held ég í hendina á honum svo að honum líði vel, sem mér er reyndar sagt að sé mjög sérstakt hjá þeim sem eru með vott af einhverfu.

Stjórnmálafræðingurinn: OK, þannig að þetta er misskilningur.

Guðfræðingurinn: Já, heldur betur. Þetta endaði svo með því að gömul kona stoppaði okkur á Laugarveginum og bað frænda minn að syngja lag sem hefði alltaf verið í uppáhaldi hjá sér. Hún skammaði hann svo eftir flutninginn fyrir að gera grín af þroskaheftum og frændi minn fór að skæla. Við enduðum svo með ísbíltúr áður en við héldum aftur upp á Sólheima.

Georg rýkur upp og í jakka og segir: Ég er farinn að ná í eintak af DV.

Síminn hringir, Stjórnmálafræðingurinn svarar og Guðfræðingurinn hallar höfðinu ofan í bringuna og lokar augunum, vitandi hvað innihald símtalsins er.

Stjórnmálafræðingurinn hress: Halló. Já sæl. Jújú, við erum búnir að frétta það… já ég skal skila sérstökum hamingjuóskum með það að vera kominn útúr skápnum frá uppáhalds Lessunni hans. Hahaha! Já, heyrumst. (Skellir á Lessuna)

Stjórnmálafræðingurinn: Ég átti að skila sérstökum…

Guðfræðingurinn rýkur upp: Já ég heyrði það!

Guðfræðingurinn gengur í átt að símanum og rífur hann úr sambandi.

Næstu daga rigndi hamingjuóskum, myndum úr DV með tilvitnunum úr Biblíunni og öðrum álíka grínskilaboðum yfir Guðfræðinginn og allt til loka kommúnunnar reyndu sambýlingarnir með reglulegu millibili að skipta út myndum í stofunni fyrir þessa innrömmuðu mynd af frændunum, en aldrei nema með skammtíma árangri.

Kveð í bili, ykkar ástkæri Þrándur.

Guðlast! (saga sjö)

Komið þið sæl!

Eins og svo oft áður þegar enginn íbúa kommúnunnar var í eldhúsinu hafði ég komið mér fyrir á eldhúsborðinu. Það var laugardagskvöld og menn rétt að jafna sig eftir erfiða vinnu/skólaviku. Strákarnir voru farnir að slaka á með bjór í hendinni og undirbúa sig undir partý næturinnar sem þeir ætluðu allir í og var í nágrenninu, þegar Jonni vinnufélagi Georgs bankar á hurðina og gengur í bæinn.

Stjórnmálafræðingurinn hress: Blessaður Jonni!

Jonni hressari en allt: What´s up?!? Hvað segja kjeeparnir í kvöld? Er verið að fá sér?… Djöfull eruð þið flottir!

Raunvísindamaðurinn glettinn: Jafn flottir og þínir menn úr Bítlaborginni. Djöfull voruð þið slakir í dag. Ha? Tap gegn Bolton. Hvað eru margir mánuðir síðan að þið unnuð leik?

(Stjórnmálafræðingurinn og Guðfræðingurinn hlæja en Georg klórar sér í skallablettinn aftan á höfðinu á sér og grettir sig hugsi)

Jonni bitur en hlær samt: Þegiðu maður! Við erum búnir að vera þvílíkt óheppnir. En Rafa er á réttri leið með liðið.

Stjórnmálafræðingurinn: Á réttri leið? Hvað er þetta þriðja árið í röð sem þið skítið á ykkur fyrir áramót?

Jonni hugsi. Nee… við tökum allavegana Meistaradeildina í vor. Þessi óheppni hlýtur að hverfa og svo eru Aurelio, Hyypia og Pennant meiddir.

(Allir hlæja nema Georg)

Georg pirraður og æstur: Óheppni, óheppni? Ég veit allt um óheppni. Ég er óheppnasti maður mannkynssögunnar og ég þekki óheppni þegar að ég sé hana og þetta er enginn helvítis óheppni. Þetta er hreinlega vonlaust lið! Vonlausir eigendur, ömurlegur þjálfari, slakir leikmenn og hræðileg spilamennska. Samt er ég bara búinn að fylgjast með fótbolta í tvö ár (hlær taugaveikluðum hlátri, bendir á Jonna og hækkar róminn). Ef að þetta skánar ekki eftir áramót að þá er ég hættur að halda með þessu helv…

Jonni hlær en segir ákveðinn: Hey, róaðu þig maður. Þetta kemur allt ,,You never Walk alone”. The Rafa-lution is on.

(Hinir sem þola ekki Liverpool hlæja)

Jonni skiptir um umræðuefni: Strákar, ég verð að spyrja ykkur spurningar sem við vorum að ræða á kaffistofunni í dag.

Georg skammast sín og segir: Æi, Jonni þeir vilja ekki svara svona spurningum.

Jonni brosir hress: Jú, maður! Þetta er klassísk spurning, þvílíkt nett!

Raunvísindamaðurinn með litlar væntingar: Jæja skjóttu þá!

Jonni leggur olbogana á hné sér þannig að handleggirnir vísa út og sést inn í báða lófana og tekst að ná einbeitingu allra: OK, hvaða konu mynduð þið sofa hjá ef að þið mættuð sofa hjá hvaða konu sem er?

Raunvísindamaðurinn sem hafði litlar væntingar verður samt fyrir vonbrigðum og dæsir:Aahhh

Georg skömmustulegur: Ég sagði þér það!

Stjórnmálafræðingurinn sér hvað Jonni og Georg verða skömmustulegir og bakkar þá upp og segir: Ég verð reyndar að segja að ég er spenntur fyrir að heyra Guðfræðinginn, Heimspekinginn og Raunvísindamanninn svara þessum spurningum. Ekki til að heyra kvenmannsnafnið heldur til að sjá hvaða mann þið hafið að geyma.

Heimspekingurinn hugsi: Já… það má kannski segja að það sé smá sálgreining sem kraumar undir þessari lágmenningu sem spurninginn svo sannarlega er. (Lítur til lofts og leggur fingurgóma hægri handar yfir munninn) Humm? Hvað myndu Lacan og Zizek segja við þessari spurningu.

Jonni grípur orðið: OK, ég skal byrja. Ég var kominn með topp þrjár en tók Jessicu Alba fram yfir Pamelu og… hérna hvað heitir hún fyrrverrandi kærasta Hugh Grant?

Raunvísindamaðurinn: Elizabeth Hurley

(Heimspekingurinn, Stjórnmálafræðingurinn og Guðfræðingurinn líta á hann forviða af undrun)

Jonni: Já, en ég valdi sem sagt Jessicu Alba fram yfir Pamelu og Hurley vegna þess að hún er mikið yngri og á þess vegna fleiri ár eftir.

Heimspekingurinn/Listamaðurinn segir hljóðlega hneykslaður: Great. Bæði djúpt og rómantískt.

Stjórnmálafræðingurinn: Jæja, þá er komið að hinum mikla guðsmanni, yfirmunk kommúnunnar!

Jonni hlær kreatín hlátri: Já, hvað segir munkurinn.

Guðfræðingurinn: Nei, ég tek ekki þátt í svona saurugum leik sem situr neðst á botni andlegrar hugsunar.

Stjórnmálafræðingurinn: Æi, ekki vera svona háfleygur og hrokafullur.

Heimspekingurinn: Já, gefðu okkur andlegt svar.

Jonni brosir Colgate brosi: Já, komdu með svar sem er yfir okkur hafið.

Guðfræðingurinn glettinn en alvarlegur: OK, ef að ég mætti sofa hjá einni konu að þá yrði það móðir hans Jonna. Ánægðir.

(Einfeldingurinn Jonni rýkur upp úr sæti sínu á afli sem hefði nægt til að gera hann að Norðurlandameistara í hnébeygju og reynir að ráðast á Guðfræðinginn, en það er Guðfræðingnum til happs að á milli þeirra er sófaborð og þrír menn sem ná að stöðva og róa kreatínfjallið. Áður en Jonni nær að hóta Guðfræðingnum er Heimspekingurinn tilbúinn með svar og menn róast því niður.)

Heimspekingurinn beitir kaldri rökfræði (en kúpplar sig frá rómantísku svari sem Listamaðurinn gæti gefið): Það eru margar breytur sem hafa þarf í huga áður en þessari spurningu er svarað, möguleikinn á að slíkt gerist í raunveruleikanum er ekki ein af þeim breytum. Fegurð og kynþokki eru tvær mikilvægar breytur en frægð og þar af leiðandi hversu góð sagan yrði til að segja öðrum er hve mikilvægust. Þess vegna myndi ég vilja sofa hjá Elizabetu Englandsdrottningu.

(Allir springa úr hlátri enda svar sem ekki er hægt að taka alvarlega)

Heimspekingurinn heldur áfram og listmaðurinn kemur fram: En svona grínlaust að þá myndi ég vilja sofa hjá Jóhönnu af Örk eins og hún birtist í huga mér.

Heimspekingurinn heldur áfram: Áður en ég hleypi Stjórnmálafræðingnum að þá hef ég eina spurningu þessu tengt. Hvort mynduð þið sofa hjá Englandsdrottningu eins og hún lítur út í dag eða Karli Bretaprins?

Hinir samhljóma: Neeeeeei, þetta er viðbjóður!

Raunvísindamaðurinn: Já þetta er eins og spurningin: Hvort myndir þú taka móður þína eða föður með þér í three-some?

Guðfræðingurinn reiður og hneykslaður, þrumar á hópinn: Hver fann upp á þessari hræðilegu spurningu? Hefur siðferðiskennd Íslendinga hrakað svo illilega að menn hafa ekki lengur boðorðin í huga áður en þeir opna á sér kjaftinn!

Raunvísindamaðurinn: Hvar hefur þú verið síðustu áratugi? Lokaður inn á miðöldum Þjóðdeildar?

Stjórnmálafræðingurinn stoppar af líklegt rifrildi og segir: Ég verð að viðurkenna að mitt svar er afleiðing rökhugsunar Heimspekingsins – þannig að þetta er í raun stolin hugmynd og því ber ég enga ábyrgð á henni…

(Allir bíða spenntir)

Stjórnmálafræðingurinn: Þegar allt er tekið með í reikninginn er því annað útilokað en að ég myndi nýta þennan rétt minn til að hafa saurugar samfarir við Maríu Mey.

(Guðfræðingurinn rýkur upp úr sæti sínu á hraða ljósins sem hefði nægt til að setja heimsmet í hnébeygju og reynir að ráðast á Stjórnmálafræðinginn en er stoppaður strax)

Guðfræðingurinn í haldi fjögurra manna öskrar á Stjórnmálafræðinginn æfur af reiði: GUÐLAST! Þú munt iðrast þessara orða á dánarbeðinu þegar þú ert á leiðinni til helvítis, andskotans heiðinginn þinn!

Stjórnmálafræðingurinn svarar rólegur úr sæti sínu á meðan hinir halda Guðfræðingnum hlæjandi: Nei, common! Ef að við spáum aðeins í þessu að þá er þetta rökrétt. Í fyrsta lagi ef að ég færi aftur í tímann að þá yrði ég ótrúlega góð föðurímynd fyrir Jesú, föðurímynd sem honum sárlega vantar eins og sést á lífshlaupi hans. Í öðru lagi myndi ég breyta nafni og ímynd Maríu sem hreinar meyjar og að lokum gæti ég sagst vera kviðmágur Guðs. Ég meina er hægt að toppa það?

(Strákarnir missa næstum Guðfræðinginn frá sér vegna hláturskastsins)

Raunvísindamaðurinn: Hahaha! Nei, það yrði ekki toppað.

Guðfræðingurinn: Þessi rök þín eru kjaftæði! Þetta er illa innrætt persónuárás á mig og mína trú! Megir þú finna fyrir reiði Guðs!

(Guðfræðingurinn rýkur á dyr og skellir á eftir sér)

Georg: Talandi um að toppa þetta. Er það ekki rétt hjá mér minn kæri Raunvísindamaður að þú sért kviðmágur Lebron James?

Allir nema Raunvísindamaðurinn: HA???

Raunvísindamaðurinn roðnar: Jú það eru sögusagnir þess efnis en mér finnst þær blikna í samanburði við Georg sem er kviðmágur þekktasta fíkniefnasala landsins…

Hinir gapa af undrun en skyndilega opnast dyrnar…

Guðfræðingurinn kemur aftur inn örlítið rólegri: Ég vil bara segja það við þig (bendir á Stjórnmálafræðinginn) að þó að ég ætli að sitja á mér að þá mun ég aldrei fyrirgefa þér þetta, þú þarna helvítis Lúsifer sem þú ert.

Menn gleyma kviðmágsumræðunni og halda áfram.

Heimspekingurinn: Jæja en hvað með ykkur tvo? Hverju svarið þið? (Lítur á Georg og Raunvísindamanninn)

Georg dettur ekkert í hug og er hræddur um að verða sér til skammar og segir því: Þú mátt vera á undan.

Raunvísindamaðurinn veit að hann getur ekki toppað Stjórnmálafræðinginn en nýtir tækifærið sem felst í því að Guðfræðingurinn er ennþá brjálaður og segir: Það vita allir hér inni að síðasta svar verður ekki toppað en mér ber skylda til að halda uppi stemmningu og segi því Vigdís Finnbogadóttir.

Guðfræðingurinn rýkur aftur upp og á dyr og öskrar: Djöfull eruð þið ómerkilegir allir sem einn! Megi heilagur faðir láta flæða yfir þessa saulífiskommúnu líkt og Sódómu forðum á meðan ég er í burtu. Þið verðið aldrei, ég segi aldrei framar í bænum mínum! (Skellir hurðinni).

(Fræðimennirnir þrír hlæja mikið, Georg vorkennir Guðfræðingum en Jonni er mjög undrandi.)

Jonni: Eru þetta ekki fremur ýkt viðbrögð við fyndnu svari?

Georg: Nei, Vigdís er náfrænka hans og hans helsta fyrirmynd á meðan hann var að alast upp. Faðir hans og afi höfðu meira að segja áhyggjur af því að Guðfræðingurinn yrði ekki prestur því hann vildi svo heitt ganga í fótspor frænku sinnar og verða forseti.

Að þessu loknu átta strákarnir sig á því að þeir eru að verða of seinir fyrir partýið, hafa sig til, renna af stað út í nóttina og skilja mig einan eftir í myrkrinu. Íbúðin er tóm en það er eitthvað fallegt við einveru mína, því að ég veit að í kvöld eru miklar líkur á að einn af strákunum mínum finni álíka fagra sál til að verja yndislegum stundum með – mögulega meira um það síðar. Sleiki loppurnar og kveð ykkur í bili.

Komið þið sæl!

Georg, Guðfræðingurinn, Raunvísindamaðurinn og Heimspekingurinn sátu eins og svo oft áður inni í stofu en ég lá á eldhúsborðinu við hliðina á illa lyktandi bjúgum. Þeir voru að spila Olsen, Olsen, nú er ég ekki að reyna að vera fyndinn en bæði lagið eftir Sigur Rós og auk þess spilið á meðan að þeir biðu eftir Stjórnmálafræðingnum. Þeir voru orðnir fremur pirraðir enda höfðu þeir ætlað að byrja að spila póker fyrir næstum hálftíma síðan þegar þeir heyra að hlaupið er upp að húsinu og Stjórnmálafræðingurinn hendist í gegnum hurðina æstur.

Georg smá pirraður: Hvar ert þú búinn að vera? (lítur á klukkuna)

Stjórnmálafræðingurinn brosir uppljómandi: Hjá ömmu á spítalanum…

Heimspekingurinn grípur inn í: Það er nú varla eitthvað til að kætast yfir…

Raunvísindamaðurinn: Já hvernig hefur amma þín það?

Stjórnmálafræðingurinn: Hún er öll að braggast. En vitið þið hvað? (Stoppar) Ég og mamma erum búin að vera að ræða málin í allan dag uppi á spítala og ég hef ekki rætt svona mikið við hana í fleiri ár…

Georg ekki sérlega hugfanginn: Er það svona eftirsóknarvert? Mæður eru nú ekki það…

Stjórnmálafræðingurinn grípur inn í: Bíddu! Við fórum að ræða stjórnmál og ég var að bölva VG og þá minnti hún mig á að hún hefði nú verið róttæk á sínum tíma. Ekki nóg með það heldur var hún bæði í Fylkingunni og tók þátt í róttækum cellu fundum en það er ekki aðalatriðið…

Georg: Cellu fundir? Hvað er það?

Guðfræðingurinn hneykslaður á móðurinni: Það voru fundir sem að haldnir voru af róttæku fólki þegar að kommarnir ætluðu að bylta þessu landi með vopnuðum átökum og…

Stjórnmálafræðingurinn spenntur: Leyfið mér að klára. Já hún var sem sagt í Fylkingunni og blablabla og fór síðan í Kvennalistann (Stoppar)

Guðfræðingurinn ennþá hneykslaðri: Púff!

Stjórnmálafræðingurinn: Og hún og Ingibjörg Sólrún voru ágætis vinkonur…

Guðfræðingurinn á varla orð enda með mikla andúð á Ingibjörgu Sólrúnu: Og þá hlýtur hún að hafa náð botninum?

Stjórnmálafræðingurinn: Það er ekki aðalatriðið, heldur segist hún eiga mynd (spennist upp) af Ingibjörgu Sólrúnu að reykja jónu.

Hinir missa andlitið: Ha?!?

Guðfræðingurinn blöskrar: Helvítis hippinn!

Stjórnmálafræðingurinn: Já, hún segist eiga þessa mynd einhvers staðar niðri í kjallara í myndaalbúmi og að þar séu líka skrautlegar myndir af þjóðþekktum einstaklingum. Sumir séu í annarlegu ástandi og flest allir alveg hræðilega hallærislegir.

Heimspekingurinn efast: Ég trúi þessu ekki. Ég sé það ekki fyrir mér að Ingibjörg Sólrún hafi reykt hass. Ég er nú ekki hennar dyggasti stuðningsamaður en ég kaupi þetta ekki. Þetta hlýtur bara að vera kona sem er mjög lík henni.

Stjórnmálafræðingurinn í kaldhæðni: Og ég sem hef kosið Ingibjörgu Sólrúnu og Samfylkinguna færi að búa til svona sögu. Ég spurði mömmu nokkuð vel út í þetta og hún var 100% að þetta væri Solla með jónuna. Nú er bara að finna helvítis myndina. Það kom líka fram í viðtali einhvern tímann við hana að hún hefði prófað að reykja hass.

Heimspekingurinn hissa: Í alvöru? Fyndið (hlær).

Guðfræðingurinn alvarlegur: Það er ekkert fyndið við það að einhver jónuspúandi rauðsokkuhippi sé utanríkisráðherra og enn síður að hún hafi verið að flash-a því stolt fyrir framan myndavélina hvað hún væri óábyrgur dópisti.

Stjórnmálafræðingurinn pirraður: Já einmitt. Alveg að auglýsa það í blöðunum. Heldur þú virkilega að Davíð Oddsson hafi ekki prófað hass eða einhver fíkniefni? Hefur þú séð myndir af honum með afró síðan í menntaskóla?

Raunvísindamaðurinn: Já, hann fær prik fyrir hárið, (spennir kassann og setur nefið upp í loftið og segir með miklum menntahroka) enda eðal MR-ingur.

Stjórnmálafræðingurinn: Sama má segja um flest alla aðra, til að nota guðfræðifrasa… þetta voru aðrir tímar og allir voru að þessu. Ég er vissum að Sigurbjörn Einarsson fyrrverandi biskup hefur pottþétt reykt hass með meðlimum úr Þjóðvarnarfélaginu.

Guðfræðingurinn hækkar röddina ákveðinn: Vertu ekki að búa eitthvað til!

Raunvísindamaðurinn hlær: Búa eitthvað til? Kemur þetta ekki úr hörðustu átt?

(Hinir hlæja)

Heimspekingurinn breytir um umræðuefni og spyr Stjórnmálafræðinginn: En hvað ætlar þú að gera þegar þú færð myndina undir hendur?

Guðfræðingurinn ákveðinn: Nú segja sannleikann hlýtur að vera!

Raunvísindamaðurinn brosir: Þarf ég að endurtaka mig… kemur þetta ekki úr hörðustu átt.

Guðfræðingurinn grípur orðið áður en þeir ná að hlæja: Það er siðferðileg skylda þín að fara með þessa mynd beint í fjölmiðlana!

Stjórnmálafræðingurinn hissa: Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að gera það? Konan er búin að játa að hafa prófað hass og því er ekkert fréttnæmt í þessu. Ætlar þú auk þess að telja mér trú um að ef þú kæmist yfir mynd af háttsettum manni innan Þjóðkirkjunnar að gera ólöglega hluti að þá myndir þú fara með það í fjölmiðlana?

Guðfræðingurinn hrokafullur: Blessunarlega er engin hætta á slíku. Biskupar og prestar kirkjunnar eru vandað fólk.

Raunvísindamaðurinn: Já, eins og mannkynssagan staðfestir svo rækilega. Biskupar að misnota börn og margt álíka ógeðfellt.

Georg hissa og móðgaður: Íslenskir biskupar? Hafa íslenskir biskupar verið að misnota börn?

Guðfræðingurinn reiður og hneykslaður: Nei, auðvitað ekki!

Raunvísindamaðurinn: Nei, Georg ég var að tala um erlendis. En hvað veit maður?

Guðfræðingurinn bendir á Raunvísindamanninn: Vertu ekki að strá frækornum efans.

Heimspekingurinn: Hvernig var það með Ólaf biskup? Var hann ekki dæmdur fyrir nauðgun?

Guðfræðingurinn brjálaður: Nei, hann var aldrei dæmdur! Hann var sakaður af einhverjum ómerkilegum heiðingjum. Ólafur myndi aldrei gera nokkrum manni illt.

Raunvísindamaðurinn: Þær drógu þetta víst til baka.En maður veit aldrei?

Guðfræðingurinn ræðst á Raunvísindamanninn: Nú hættir þú þessum tilbúningi!

(Hinir slíta Guðfræðinginn burt frá Raunvísindamanninum)

Raunvísindamaðurinn hlær: Þú skalt ekki morð fremja…

Guðfræðingurinn öskrar: Þú skalt ekki ljúga!

Stjórnmálafræðingurinn: En hvað með þennan prest á Selfossi? Var hann ekki að káfa á börnum?

Guðfræðingurinn fer undan í flæmingi: En hvernig er það með þessa mynd…

(Hinir hlæja)

Guðfræðingurinn: Viltu ekki hringja í móður þína og spyrja hana hvort að hún sé búin að finna myndina?

Stjórnmálafræðingurinn: Best að ég geri það, hún er örugglega komin heim. (Nær í símann og hringir).

Georg: Hvað segið þið? Verðum við ekki að bíða með póker þar til í næstu viku?

Heimspekingurinn: Nei, ég klára þetta fljótt af!

Raunvísindamaðurinn: Hefur þú einhvern tímann tekið pottinn?

Heimspekingurinn: Nei, enda sagði ég að ég myndi klára þetta fljótt af. Ég kíki svo á Seinfeld á meðan þið klárið spilið.

Stjórnmálafræðingurinn grípur inn í hneykslaður: Þið trúið þessu aldrei. Mamma fór niður í kjallara til að finna albúmið. Þegar hún var svo búin að finna það og var að fletta í gegnum það þá var búið að taka myndina og skilja eftir lítinn miða (áherslustopp) á honum stóð (annað áherslustopp) ,,Sorry, ég varð að fjarlægja þessa mynd – kveðja Solla”

Hinir stara af undrun og segja í kór a innsoginu: Neeeeiiii.

Stjórnmálafræðingurinn: Ég get svo svarið það!

Georg reiður: Svo að Ingibjörg Sólrún braust inn í kjallarann hjá móður þinni og rændi eign hennar?

Stjórnmálafræðingurinn: Nei, hún hringdi í hana og spurði að þessu í léttum gír og Ingibjörg hló og sagðist hafa tekið myndina fyrir mörgum árum þegar hún var að skoða albúmið – áður en mamma og pabbi fluttu.

Guðfræðingurinn: Hún brýtur samt sem áður eitt af boðorðunum með þessu.

(Hinir hrista höfuðið og taka ekki mark á þeim orðum)

Georg er reiður: Og ætlar mamma þín að leyfa henni að komast upp með þetta?

Stjórnmálafræðingurinn: Já, henni virtist slétt sama, fannst þetta bara fyndið.

Georg pirraður: Fyndið? Fyndið? Ég skal segja þér hvað er fyndið? Við förum núna og brjótumst inn til Ingibjargar Sólrúnar og tökum þessa mynd… það er fyndið!

Guðfræðingurinn var sammála Georgi, en hinir hristu höfuðið og undirbjuggu sig undir að spila póker. Guðfræðingurinn og Georg ásamt Jonna áttu stuttu seinna eftir að leggja á ráðin varðandi það að brjótast inn hjá utanríkisráðherranum, en meira um það síðar.

Kveðja Þrándur

Komið þið sæl!

Að þessu sinni tökum við upp þráðinn þar sem Listamaðurinn/Heimspekingurinn hafði kynnt aðra íbúa kommúnunar fyrir Katrínu… Lessunni. Katrín og Listmaðurinn snæða grænmetisréttinn en restin verður að sætta sig við eldamennsku Guðfræðingsins sem endurspeglar karakterinn sjálfan íhaldsöm þjóðernisleg og hálfleiðinleg hreinlega. Jonni situr ennþá inni í stofu og hlustar á frygðarstunurnar sem berast frá sjónvarpinu en er beðinn um að lækka af grænmetisætunum þegar að setningin ,,sleiktu á mér salatið” heyrist frá einum af karlleikurunum – en þá að matarborðsumræðum.

Stjórnmálafræðingurinn reynir að vera hress en lætur Guðfræðinginn heyra það: Það er eins og að stökkva öld aftur í tímann þegar að þú eldar. Hvernig er hægt að bera fram soðnar rófur með hvaða mat sem er?

Guðfræðingurinn ánægður: Rófur eru nú það grænmeti sem hélt lífinu í Íslendingum lengi vel. Án þess hefðum við nánast ekkert grænmeti fengið.

Georg: Maður hefði þá haldið að þjóðin hefði fengið nóg af þeim?

Raunvísindamaðurinn í beinu framhaldi: Mannát í Frakklandi var líka liðið á tíma frönsku byltingarinnar, en síðan hætti fólk því þegar að annað var á boðstólnum.

Guðfræðingurinn: Þú getur ekki borið þetta tvennt saman. Rófur eru veigar skaparans, bragðgóðar, hollar og lausar við siðblindu ólíkt mannáti.

Stjórnmálafræðingurinn: Það er alveg merkilegt hversu íhaldssamur þú getur verið. Sjáðu t.d. þennan létta grænmetirrétt sem þau eru að borða (bendir á girnilega diska Katrínar og Heimspekingsins). Af hverju getur þú ekki prófað að gera svona mat í stað þess að bjóða upp á rófur og kjöt eða fisk sem hefur verið velt upp úr raspi – nýbreytnin myndi varla drepa þig?

Guðfræðingurinn orðinn pirraður: Af hverju ferð þú ekki bara út og kaupir þér þetta ógeð. Ég er Íslendingur og þetta er minn matur, sjáðu þau tvö… lesbía og listahommi – þú vilt kannski breyta mér í þannig manneskju?

Heimspekingurinn: Æi, hættið þið þessu og njótið þessa (með kaldhæðni í röddinni) yndislega matar sem endurspeglar svo margt í kringum okkur. Gamalsdags matarmenning Íslendinga er jú rómuð um allan heim.

Georg horfir hneykslaður á diskinn sinn og rótar í honum með gaffli: Þessi matur hlýtur að vera einhvers konar mannréttindabrot. Kannski ekki gagnvart mér en hvað með börn landsins sem þurfa að sætta sig við svona viðbjóð?

Guðfræðingurinn lemur í borðið: Éttu matinn og grjóthaltu kjafti!

Georg pirraður: Nei, í alvörunni á hvaða tímapunkti verður matur eða hvaða slæma hefð sem er hreinlega að mannréttindabroti?

Katrín: Já, eins og umskurður kvenna.

Stjórnmálafræðingurinn: eða karla…

Guðfræðingurinn reiður: Nú, nú… á að fara að banna trúarbrögðum að halda í hefðir?

Katrín: Finnst þér að umskurður kvenna með öllum þeim þjáningum sem því fylgir eigi rétt á sér? Viltu ekki að konur geti líka notið kynlífs?

Guðfræðingurinn hugsi: Nei, en umskurður drengja hefur engar slíkar aukaverkanir.

Stjórnmálafræðingurinn: Hvar er hægri maðurinn núna? Hvað með rétt einstaklingsins? Af hverju eiga drengir að sætta sig við það í æsku að forhúðin á þeim sé skorin af svo að foreldrarnir fái einhverja trúarlega ró fyrir sig?

Guðfræðingurinn hugsi: Nee…umm sko. Þetta er ekki spurning um vilja foreldranna heldur hefðir sem tengjast trúarbrögðum.

Stjórnmálafræðingurinn: Já, bull hefðir! Það er ekkert jákvætt við þennan umskurð.

Raunvísindamaðurinn: Reyndar er þetta talið mun hreinlegra og þar af leiðandi minni líkur á sjúkdómum eða sýkingu, en ég er samt sammála þetta er réttur einstaklingsins.

Stjórnmálafræðingurinn: Já og ef að viðkomandi einstaklingur kýs að vera hreinlegri þá fer hann í þessa aðgerð sjálfur þegar að hann er orðinn sjálfráða. Ekki yrði það liðið ef að foreldrar helltu óafturkræfu háreyðingarkremi yfir höfuð barns af trúarástæðum svo að það myndi ekki getað safna hári – þó að það sé snyrtilegra og hreinlegra að vera með stutt hár.

Raunvísindamaðurinn grípur inn í: eða að tatoovera barnið…

Stjórnmálafræðingurinn ákafur (Bendir á Guðfræðinginn) Hvar vilt þú draga mörkin varðandi umskurð vegna trúarlegra hefða… við forhúð, sníp, eyra, tær eða fingur? Jafnvel útlimi?

Guðfræðingurinn hnussar reiður og neitar að svara: Merkilegt hvað þið standið alltaf saman um að rífa niður menningu og hefðir. Þið ættuð að…

Katrín grípur inn í: Ég er alveg sammála ykkur strákar. Ég vil ganga lengra og banna foreldrum að troða trú og trúarathöfnum upp á börnin sín.

(Raunvísindamaðurinn og Stjórnmálafræðingurinn gapa undrandi)

Guðfræðingurinn: Bölvaður heiðingjaháttur er þetta, er þetta einhver órökrétt kynvilla að brjótast út? Auðvitað hafa foreldrar fullan rétt til þess enda bera þau hag barnsins fyrir brjósti sér og hver ert þú sem ekki munt getað eignast barn án…

Raunvísindamaðurinn og Stjórnmálafræðingurinn grípa fram í: Katrín, við gætum ekki verið meira sammála þér og höfum einmitt oft rætt fáranleika þess.

Stjórnmálafræðingurinn aftur og horfir á Guðfræðinginn: Þetta er enginn heiðingjaháttur, þó að hann sé svo sem æðri kristni. Þetta er klassískt átakaefni um mannréttindi og frelsi einstaklingsins gegn trúarþvaðri og kjánalegum hefðum. Ef að umskurður væri ekki trúarleg athöfn að þá myndu barnaverndaryfirvöld taka börn af þeim foreldrum sem myndu gera barninu sínu slíkt og foreldrarnir fengju geðsjúklingastimpil á sig í samfélaginu.

Guðfræðingurinn er ekki hættur: Andskotans kjaftæði er þetta, trúaðir foreldrar eiga þá bara að sætta sig við að börnin þeirra séu trúlaus og komist ekki í himnaríki ef þau deyja áður en þau taka þessa ákvörðun sjálf? Hvar liggur þá réttur foreldra? Þeir mega kannski ekki heldur gefa barninu nafn eða koma í veg fyrir að þau drekki eða reyki á unga aldri?

Stjórnmálfræðingurinn: Já, þau eiga að sætta sig við hlutleysi barnsins í trúmálum þangað til það verður sjálfráða og tekur ákvörðun. Nei, þau geta gefið barninu nafn vegna þess að það getur breytt því seinna meir og reykingar og drykkja eru bönnuð lögum samkvæmt undir ákveðnum aldri og foreldrar eiga að sjá til þess að börnin virði lög landsins.

Heimspekingurinn: Ég verð nú að bakka upp trúmanninn að þessu sinni, hefðir og menning eru mikilvæg hverri þjóð og það er nú rétt að minna á hvað gerðist í Kína þegar að menn reyndu að bylta þar.

Raunvísindamaðurinn: Það eru alveg til góðar hefðir, en það er fráleit að líkja frelsi einstaklingisins og mannréttindabaráttu fyrir börn við Menningarbyltingu kommúnistans Maos, réttar væri að tala um Ómenningarumbætur jafnaðarmanna.

(Katrín og Stjórnmálafræðingurinn hlæja en Georg sýgur rófu eins og svo oft í æsku)

Katrín: Sammála þessu. Varðandi skírnina að þá er hún líka eins og andlegur umskurður, því eins og staðan er í dag að þá er ekki hægt að afskíra manneskjur… eða til að bæta við það sem þið sögðuð áðan, þetta er andleg tatoovering.

Stjórnmálafræðingurinn: Þú ert ótrúlega rökvís af feminista að vera…

Raunvísindamaðurinn: Já, það mætti hreinlega halda að þú værir frjálslyndur jafnaðarmaður.Ertu vissum að þú viljir ekki koma með okkur á næsta Landsfund?
Ég held að þetta VG rugl sé eingöngu tilkomið vegna þess slæma félagsskaps sem þú ert í, þessi listaelíta er að hafa slæm áhrif á þig

Stjórnmálaafræðingurinn í gríni en getur ekki leynt aðdáun sinni: Já, ég gæti líka trúað að þú værir gagnkynhneigð eftir allt saman.

Guðfræðingurinn er rétt að ná áttum enda hefur veröld hans verið snúið á hvolf: Andleg tatoovering? Hvernig dettur ykkur slíkt rugl í hug. Hugsið ykkur hvernig veröldin væri án kristins siðgæðis? Hefðu menn einhvern tímann stigið öll þessi framfaraskref síðustu tveggja árþúsunda án kristinnar trúar? Kristin trú er undirstaða Vesturlanda og lýðræðishefðarinnar, hvernig væri íslenska þjóðin innrætt án hennar? Hvernig myndi hún virða lög og rétt í landinu?

(Georg er orðinn fjólublár af áreynslu við að sjúga rófur en hin horfa á guðfræðinginn hissa, hneyksluð en samt brosandi)

Raunvísindamaðurinn hlæjandi: Ertu gjörsamlega búinn að missa það? Gerir þú þér grein fyrir…

Heimspekingurinn grípur fram í: Leyfðu mér að taka þetta. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur af þér ef að þú virkilega trúir því sem þú varst að segja. Kristin trú hefur marga jákvæða hluti fram að færa en undirstaða og lýðræðishefð Vesturlanda er ekki kristin trú. Þverrt á móti mætti segja að kristin trú hafi verið helsta hindrun Vesturlanda og framfara almennt í gegnum aldirnar og hugtök á borð við lög, lýðræði og siðgæði eiga sér mun lengri sögu – sögu sem kristin trú einmitt nýtti sér en ekki öfugt.
Menn virða svo auðvitað lög og rétt í landinu því þeir vilja að aðrir geri nákvæmlega það sama, annars verði þeim refsað – það er kallað réttarríki með þar tilgerðum samfélagssáttmála. Hvers konar siðblinda er það að áætla að án helvítisvistar frá ósýnilegri veru að þá myndu menn ganga hér um nauðgandi, drepandi og stelandi – hvar er trúin á manninn?

Guðfræðingurinn: Ég get nú sagt þér það að ég tók sat námskeið uppi í Guðfræðideild þar sem nákvæmlega það sem ég var að segja kom fram. Varðandi naugðanir, dráp og stuldur að þá sé ég ekki betur en að ástandið fari versnandi enda foreldrar of uppteknir til að kenna börnum um kristin gildi

Stjórnmálafræðingurinn hlæjandi: Og við tveir (bendir á heimspekinginn) höfum auðvitað ekki tekið nein fög sem snúa að lögum og lýðræði?
Þessi meintu rök þín um aukið ofbeldi og stuldur standast síðan engin rök, hvorki í samanburði við ríki þar sem trú fer vaxandi eða að aukið trúleysi innanlands sé ástæðan. Getur ekki verið að ástæðan sé frekar almennt uppeldisleysi sem kemur trúnni ekkert við?

Stjórnmálafræðingurinn aftur ákveðinn: Varðandi siðgæði sem Heimspekingurinn minntist á áðan þá byggir eldra siðgæði ólíkt kristnu siðgæði ekki á brotum gegn mannréttindum barna og minnhlutahópa, mismunun á öðrum trúarhópum, á móti fóstureyðingum…

Katrín hlæjandi: Þú þarft ekki að tæma listann, við náum þessu – annars yrðir þú í alla nótt. En ég segi hins vegar jú, að hluta til tóku þeir það vonda úr eldri menningu svo sem siðgæði en á meðan aðrir hópar þroskuðust með tímanum og urðu umburðarlyndari að þá hafa kristnir menn sennilega haldið í hin meintu orð Krists og guðfræði fyrstu aldanna og þar með ekki verið í takti við tímann. Við hinir samkynhneigðu erum einmitt að ganga í gegnum þetta, að því leyti að við fáum ekki fulla réttarstöðu innan kirkjunnar vegna þess að hinir allra íhaldssömustu vitna í meint orð Krists.

Georg: En hvers vegna í ósköpunum viljið þið fá þessi réttindi frá stofnun sem er greinilega svona gegn ykkur?

Katrín: Mér er svo sem sama með trúnna en það er prinsipp mál að á meðan ríki og kirkja eru eitt og prestar eru ríkisstarfsmenn að þá eiga þeir ekki að komast upp með mismunun á fólki, það er hreinlega í lögum að slíkt sé óheimilt. Þess vegna verður að fá úr því skorið hvort að Þjóðkirkjan vill gifta samkynhneigða eða að skilja við ríkið.

Raunvísindamaðurinn hljæjandi: Skemmtileg lokaorð. Að skilja eða að gifta samkynhneigða. Haha! Hvað segir trúmaðurinn?

Guðfræðingurinn situr brúnaþungur í varnarstöðu þögull – en að lokum: Ég get aðeins sagt fyrir mig, að ég mun aldrei taka þátt í því að gifta kynvillinga! Ef að ég yrði neyddur til að taka ákvörðun að þá myndi ég vilja aðskilnað við ríkið. Kristin trú er stærri og merkilegri en íslenska ríkið í allri sinni dýrð.

Stjórnmálafræðingurinn: Já, þar höfum við það.

Georg: Hvað með rófurnar og raspið? Er kristin trú merkilegri en það tvennt í allri sinni dýrð eða er þessi hörmulegi matur eitthvað sem er kennt í sunnudagaskólanum? Getur verið að eftir því sem fólk sé trúaðra því verri smekk hafi það… t.d.á mat?

Raunvísindamaðurinn hlær: Þetta væri áhugavert rannsóknarefni en því miður eru breyturnar aðeins fleiri en svo.

Stjórnmálafræðingurinn hlær: Sé það framan á Fréttablaðinu ,,Fylgni á milli veru í Þjóðkirkjunni og slæmrar matarmenningar”, matgæðingum ráðlagt að ná sér í trúlausar konur.

Guðfræðingurinn brosir: Þið eruð nú meiri andskotans fíflin. Það verður sérstaklega vel valinn þorramatur hér á boðstólnum næst þegar að ég elda.

Katrín: Þú hefur sem sagt styrkst í trúnni við öll þessi rök og mótlæti?

Strákarnir hlæja

Raunvísindamaðurinn: Já, sumu er hreinlega ekki hægt að breyta.

Allt í einu heyrist frá Jonna í stofunni: Nnnuuuuauuu! Djöfull er hún að taka við þessu! Þvílík lipurð, þvílík gæði! (Jonni stendur upp og gerir samfarahreyfingar)

Katrín hneyksluð: Já, sumir hlutir breytast aldrei.

Raunvísindamaðurinn fær það hlutverk að taka saman og er fljótur að kasta afgangnum Guðfræðingnum til mikils ama. Þau halda inn í stofu, skipta yfir á siðmenntaðri rás og halda hversdagslegu spjalli sínu áfram. Tenglsin milli Katrínar, Stjórnmálafræðingsins og Raunvísindamannsins hafa batnað gríðarlega á þessari einu kvöldstund og Guðfræðingurinn ber óttablandna virðingu fyrir henni sem hann myndi auðvitað aldrei láta í ljós. Jonni er upptekinn af því að dást af vöðvastæltum líkama sínum en Georg situr á gólfinu með krosslagðar fætur og sýgur rófu. Það myndast falleg ró yfir hópnum og hver veit nema ef að lesendur verða þægir að þeir fái að kynnast kynvillingnum örlítið betur.

Góða nótt!

Komið þið sæl og blessuð!

Það var fallegur haustdagur í Reykjavík; eftir nokkra rigningardaga var himininn skyndilega heiðskýr og svartsýnustu menn sem voru byrjaðir að taka ullarsokka og húfur út úr geymslunni tóku gleði sína á ný og spókuðu sig um bæinn á stuttermaskyrtu. Georg var einn þessara manna og gekk inn um dyr kommúnunar í fráhnepptri skyrtu haldandi á bindinu sínu og frakkanum. Allir voru heima að undanskyldnum Guðfræðingnum sem hafði verið að hlusta á kirkjukór sem hann hafði áhuga að ganga í, en var skyndilega dreginn upp á spítala – á meðan Heimspekingurinn hafði grátið sig í svefn í herbergi Georgs eftir að hafa lesið yfir sig af Schopenhauer. Georg hafði ekki hugmynd um allt þetta og ljómaði því af gleði.

Georg breiðir út faðminn og brosir: Sælir mínir ástkæru meðleigendur!

Georg sér að menn eru brúnaþungir og spyr: Hvað? Það mætti halda að einhver hafi verið að deyja.

Stjórnmálafræðingurinn þungur: Þú hefur sem sagt ekki heyrt fréttirnar

Georg brosir: Nei, eruð þið að grínast í mér? (Kýlir léttum snöggum höggum í maga stjórnmálafræðingsins en sér svo að hvorki hann né aðrir eru að grínast)

Georg alvarlegur: Hvað gerðist? Er það mamma? Er hún með holdsveiki?

Stjórnmálafræðingurinn: Nei, manstu lyklamálið sem við töluðum um?

Georg reiður: Varla er það svona alvarlegt?

Stjórnmálafræðingurinn: Nei, en við ræddum um að láta vini okkar ekki hafa lykla af íbúðinni og nú hefur fyrsti áreksturinn orðið.

Georg hræddur: Var brotist inn? Stálu þeir teiknimyndablöðunum mínum? Ég er búinn að safna þeim síðan að ég var sjö ára.

Stjórnmálafræðingurinn: Nei, það er í lagi með blöðin Georg. En þú lést Jonna fá lykla af húsinu er það ekki?

Georg skömmustulegur: Jú

Raunvísindamaðurinn gengur að þeim og gerir sig líklegan til að taka þátt í samtalinu.

Stjórnmálafræðingurinn alvarlegur: Já, það varð nefninlega árekstur hérna á heimilinu í dag. Þú manst eftir Jónsa litla félaga Guðfræðingsins?

Georg hugsi: Nei?

Stjórnmálafræðingurinn: Jú, hann hefur komið í heimsókn hingað oft. Vinur Búlemíu Bjarna.

Georg: Búlemíu Bjarna?

Raunvísindamaðurinn: Já, Bjarna feita…

Georg: Bíddu hvort er hann. Hann getur ekki bæði verið feitur og með búlemíu

Raunvísindamaðurinn: Jú manstu hann var geðveikt grannur eins og kona og var greindur með búlemíu en var svo greindur ári seinna með vott af minnisleysi þegar hann er undir of miklu álagi.

Georg: Ha? Hvað kemur það málinu við?

Raunvísindamaðurinn pirraður: Ooohh Georg! Ég er margoft búinn að segja þér frá honum. Hann borðar geðveikt mikið þegar hann er að stressast upp en sökum minnisleysisins þá gleymir hann oft að æla í kjölfarið.

Georg pirraður: OK, ég er engu nær. Ég veit ekki hver Jónsi litli er og því síður Búlemíu Bjarni.

Stjórnmálafræðingurinn enn alvarlegur: Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir hins vegar máli er að Jónsi litli var líka með lykla og í dag kom hann hérna við og var að ná í nokkra slökunardiska sem hann hafði lánað Guðfræðingnum. Þá kemur Jonni hingað inn um leið og Jónsi er á leiðinni út, sér að hann er með fullt fang af diskum og heldur að hann sé innbrotsþjófur. Jonni kýlir því að eigin sögn Jónsa litla niður í gólfið sem gat enga vörn sér veit enda bæði ræfilslegur og með fullt fang af diskum. Jónsi liggur því meðvitundarlaus niðri á Borgarspítala með mölbrotið andlit og Guðfræðingurinn er með honum.

Georg grípur með báðum höndum um kinnar sér og segir á innsoginu: Almáttugur…

Georg heldur áfram: …og hvar er Jonni?

Stjórnmálafræðingurinn: Jonni hringdi í lögregluna sem hringdi í móðir Jónsa litla sem fékk nánast taugaáfall enda vissi hún að strákurinn ætlaði að koma hérna við og þannig útskýrðist málið. Jonni var þá hreinlega í sjokki og keyrði niður á Borgarspítala þar sem ungur sálfræðingur bjargaði honum undan fúkyrðum móðir hans Jónsa og Guðfræðingsins. Hann er því að ég best veit í áfallahjálp. Hringdu í hann en mundu að nú verðum við að safna öllum lyklum saman svo að svona atvik gerist ekki aftur.

Georg dæsir: Já, ég skal fá lykilinn… en ég ætla að hringja í Jonna.

Georg ver dágóðum tíma í símanum og kemur svo aftur inn í stofu til þeirra félaga.

Stjórnmálafræðingurinn: Jæja, hvað sagði Jonni?

Georg léttir: Þetta virðist allt vera í réttum farvegi. Guðfræðingurinn og móðir Jónsa eru búin að róast og ná sáttum við Jonna eftir að hafa heyrt söguna frá Jónsa litla.

Raunvísindamaðurinn hressari: Þannig að hann er kominn til meðvitundar?

Georg skömmustulegur: Já, en hann getur ekki talað. Munnurinn á honum er víraður saman og hann þurfti að skrifa hvað gerðist á miða og Jonni fyllti upp í söguna frá sínu sjónarhorni.

Stjórnmálafræðingurinn glaður: Jæja, hann er þó á lífi og jafnar sig á þessu. Þetta verður góð saga eftir nokkur ár.

Georg leiður: En það eru ekki bara góðar fréttir…

Raunvísindamaðurinn og Stjórnmálafræðingurinn: Nú?

Georg: Þessi Búlemíu Bjarni eða Bjarni feiti var lagður inn á bráðamóttöku.

Raunvísindamaðurinn og Stjórnmálafræðingurinn hissa: Ha?

Georg: Já, hann frétti þetta og heimsótti vin sinn á spítalann og varð svo um þegar að hann sá hann að hann rauk út og fannst nokkrum tímum síðar liggjandi á gangstétt við Laugarveginn titrandi og allur löðrandi sveittur. Hann leit víst mjög illa út enda búinn að ganga á milli skyndibitastaða og troða í sig öllum þeim sterkasta mat sem hann gat fundið. Sjúkraflutningarmennirnir þurftu víst að dæla upp úr honum matnum á miðjum Laugarveginum og magnið og lyktin var slík að nokkrir sjúkraflutningarmenn og nærstaddir ældu víst og restin kúgaðist. Slökkvuliðið þurfti í framhaldinu að mæta á staðinn og smúla svæðið enda nánast ólíft í nærliggjandi búðum.

Raunvísindamaðurinn og Stjórnmálafræðingurinn standa orðlausir.

Heimspekingurinn gengur fram til þeirra með úfið hár og stýrur í augunum: Hvað segið þið? Er það pizza í kvöld eða asískt?

Georg, Raunvísindamaðurinn og Stjórnmálafræðingurinn hristast af klígju….

Að lokum fór allt vel, Jónsi litli náði fullri heilsu og hélt áfram að syngja með indie bandinu sínu og búlemíu Bjarni náði sér á strik með því að skrifa smásögur og pólitíska pistla.

Komið þið sæl!

Það var fallegur fimmtudagur og vegna annríki menntamannanna hafði Georg hleypt mér út í vorið með þeim orðum að nýta hverja mínútu vel og leggjast fyrir sig á hverja einustu læðu sem ég sæi og vinna þannig upp margra ára vonbrigði hans með kvenfólk – það særði mig eftir langa sambúð okkar að Georg skyldi ekki muna að hann hafði samþykkt með oddaatkvæði sínu (3 gegn 2) fyrir þónokkru að láta gelda mig, en þá að sögunni.
Þar sem ég var á vappi rakst ég á manninn sem við þið þekkið best sem Heimspekinginn, en á þessum degi var hann ekki hugsandi Heimspekingur heldur hinn persónuleikinn, brothætti og viðkvæmi Listamaðurinn. Hann gekk þungum óöruggum skrefum ásamt vini sínum úr listaelítunni í átt að kommúnunni og ég ákvað að fylgja honum. Áhyggjur Listamannsins urðu því meiri sem tíminn leið og við nálguðumst kommúnuna. Honum fannst það verri og verri hugmynd með hverri sekundunni sem leið að bjóða þessum vini sínum inn til sín, enda var honum ljóst hvers konar sprengjuárás það yrði. Vinurinn var hins vegar jákvæður, stappaði í hann stálinu og minnti hann á að nú væru liðnir nokkrir mánuðir síðan hann lofaði að kynna kommúnubúana fyrir sér.

Listamaðurinn niðurlútur: Úff! Þetta verður algjör martröð, algjör martröð.

Katrín: Nei, láttu ekki svona. Þetta eru menntaðir menn og þeir verða varla með dónaskap við mig við fyrstu kynni.

Listamaðurinn: Nei, þú skilur ekki. Þessir menn eru versta blanda sem þú getur nokkurn tímann komist í. Þetta er eins og bera eld að eldfimum vökva eða eins og að…

Katrín grípur inn í lauflétt: Hvað meinar þú eiginlega?

Listamaðurinn ákveðinn: Það sem ég er búinn að segja þér margoft. Einn er mjög íhaldssamur Guðfræðingur. Tveir eru frjálslyndir hægri kratar og Georg er fáfróði og skilningslausi maðurinn sem líkar illa við öfgar.

Katrín hissa: Og hvað?

Listamaðurinn enn ákveðnari: Og þú ert ansi margt sem þeir hafa óbeit af. Í fyrsta lagi ertu Lesbía, Guðfræðingurinn verður væntanlega himinlifandi að kynnast og umgangast lessu daglega. Í öðru lagi ertu einn af þessum öðruvísi listamönnum og nóg hef ég nú fengið sjálfur af fúkyrðum og háði fyrir að vera einn af listaelítunni. Í þriðja lagi ertu í VG sem mun skapa mikil vandræði inná heimilinu fyrir alla nema Georg og síðast en ekki síst ertu feministi eða Feminasisti eins og Guðfræðingurinn orðar það. Þannig að þú sérð kannski hvernig þetta gæti skapað smá usla eða hvað?

Katrín ekki alveg eins hress og svolítið stressuð: Já, þetta gæti orðið áhugavert.

Þau ganga saman þessa síðustu metra og hjartað í þeim byrjar að pumpa hraðar og hraðar því nær sem dregur – spennan er nánast yfirþyrmandi þegar Listamaðurinn snýr lyklinum í skránni og opnar hurðina. Þau líta inn í eldhúsið og svo inn í stofuna og Listamanninum léttir þegar hann áttar sig á því að allir eru heima nema Guðfræðingurinn, en hveitibrauðsdagarnir eru stuttir.

Georg sér ekki Katrínu strax og kallar á Listamanninn: Þú trúir þessu aldrei (hlær). Ég kveikti á sjónvarpinu og var að flakka á milli stöðva á myndlyklinum og átta mig á því að við erum með allar stöðvarnar frítt. Trúir þú þessu? (hlær meira). Ég er búinn að vera að horfa á Blue Hustler í allan dag. Áðan voru fjórir menn ofan á, undir og við hliðiná… inn í sömu kellingunni (hlær). Þetta er yndislegt!

Georg sér að Listamaðurinn er skrítin á svipinn og sér þá Katrínu, verður vandræðalegur en setur svo upp ,,ég er sjarmerandi/ég er sexy” svipinn sinn, strýkur hægri hendinni um það litla hár sem eftir er hægra megin og segir: Halló, halló – hver er þessi unga dama með þér?

Katrínu blöskrar það sem hún hafði heyrt og finnst þessi hobbiti sem hún sér ógeðslegur en reynir samt að vera kurteis, réttir út hendina gegn sinni betri vitund, vitandi hvar hendi Georg hefur líklega verið og segir: Sæl ég heiti Katrín.

Georg pírir augun og reynir að vera ,,meira sexy” grípur í hendinni og segir: Sæl ungfrú. Ég heiti Georg (kyssir hendina).

Listamaðurinn: Georg, ekki einu sinni láta þér detta það í hug. Katrín hefur aldrei verið við karlmann kennd.

Georg sleppir hendinni vonsvikinn: Gat nú verið, auðvitað er hún Lesbía. Þú kemur loksins og kynnir mig fyrir dömu og þá er það lessa.

Raunvísindamaðurinn og Stjórnmálafræðingurinn standa upp og kynna sig en eru snöggir að fá sér betri sæti og njóta sýningarinnar þegar þeir heyra að sturtað er niður inni á baði. Listamaðurinn kyngir munnvatni.

Guðfræðingurinn rífur upp hurðina og gengur brúnaþungur í átt að þeim og segir með djúpri karmannsrödd: Sæl Katrín (stendur í smá fjarlægð með hendur í vösum) ég er Guðfræðingurinn á þessu heimili. Er það rétt sem mér heyrðist að þú sért Lesbía?

Katrínu er brugðið við þessu fyrstu kynni og fer í vörn: Já, ég fæddist víst svona.

Guðfræðingurinn: Fæddist svona segir þú. Ertu vissum að þú hafir ekki bara valið þér það til að vera öðruvísi?

Katrín hikar: Uhh?

Raunvísindamaðurinn bjargar henni: Auðvitað fæddist hún samkynhneigð, vertu ekki með þetta miðaldarraus.

Guðfræðingurinn: Jæja þá, þangað til að annað kemur í ljós. En ég skal segja þér Katrín… að eitt er staðreynd og það er að Guð leggur ekki blessun sína yfir kynvillinga eins og þig.

(Katrín orðlaus af undrun)

Stjórnmálafræðingnum ofbýður og stendur upp: Hvaða dónaskapur er þetta eiginlega? Vinur okkar kemur hérna inn með gest, sem hefur örugglega verið erfitt sökum þinna skoðanna og þú ætlar að tæta þau í sig vegna þess að Katrín hefur fæðst á einhvern þann hátt sem býður við þinni fornaldarhugsun. Hvar er náungakærleikurinn og kristna siðgæðið núna herra þjónn Guðs?

Guðfræðingurinn bendir á Stjórnmálafræðinginn og segir í hvössum tón: Hann vissi það mjög vel hvað það myndi þýða að draga kynvilling inn á heimili drottsins…

Raunvísindamaðurinn mótmælir harkalega: Þetta er ekki heimili drottins…

Guðfræðingurinn lætur sem hann hafi ekki heyrt mótmælin og heldur áfram: …eins og hann ætti að hafa vit á því að draga ekki inn á heimilið einhvern rótttækan vinstri mann.

Stjórnmálafræðingurinn: En það er stórmunur á því að vera af einhverju kyni, kynþætti eða í þessu tilfelli kynhneigðar eða að vera svo fávís að geta ekki áttað sig á því út frá skoðunarmyndun að róttæk vinstrimennska er einhver mesta heimska sem nokkur maður getur aðhyllst að fasisma, nasisma og feminisma undanskyldum.

(Listamaðurinn ræskir sig og nú sýður gjörsamlega á Katrínu)

Stjórnmálafræðingurinn áttar sig og hlær af hneykslun: Nei, ertu að grínast? Ertu líka rótttæklingur úr VG? Hversu slæmt getur það orðið?

Katrín sem hingað til hafði haldið aftur af sér nánast öskrar: Já ég er lesbía sem kýs VG en ekki bara það ég er líka feministi…

Guðfræðingurinn skýtur inn: Svei´attann!

Katrín: …og í ,,listaelítunni og já ég er grænmetisæta. Djöfull eruð þið óþroskaðir og með þröngt sjónarhorn.

Raunvísindamaðurinn öskrar í háði: Út með gæruna!

Guðfræðingurinn áttar sig ekki á hæðninni og öskrar: Já út með helvítis lessuna!

Stjórnmálafræðingurinn: Nei, við skulum nú aðeins róa okkur niður, setjast og ræða málin eins og við séum menntaelíta en ekki einhverjir tregir nýnasistar.

Guðfræðingurinn alvarlegur: Sagðir þú nýnasistar eða feminasistar?
(Listamaðurinn og Katrín senda honum illt auga)

Georg stendur hissa og segir: Hvernig getur ein manneskja verið svona margt slæmt í einu? …En ef maður hugsar út í það þá er það ekki alvitlaust, frekar að láta allt bullið í eina manneskju en að dreifa því á nokkrar. Þetta er eins og með sjúkdóma sem leiða menn… (bætir snögglega við) og konur til dauða. Maður sem hvort sem er er kominn með AIDS gæti allt eins fengið krabbamein og…

Listamaðurinn gráti næst: Nei, nú stoppa ég þessi ósmekklegheit af hjá þér Georg…

(Stoppar líka Katrínu af, sem er við það að ganga út)

Listamaðurinn heldur áfram í miklu uppnámi: Við búum hérna saman og höfum gert það nokkuð lengi og sæst á galla hvers annars án þess að nokkur hafi flutt út. Getið þið ekki gert mér greiða og boðið vin minn velkominn hingað inn þó að þið kunnið að vera mótfallnir skoðunum hennar og eða… (lítur fyrirlitningaraugum á Guðfræðinginn) kynhneigð.

Restin af strákunum hummar jú en eru greinilega ekki tilbúnir til að hleypa þessum mikla óvini sínum mikið nær sér.

(þögn)

Georg rífur þögnina: En Katrín ef að þú ert lessa og feministi, af hverju ertu þá ekki með stallklippingu og stuttan topp?… Nei ég er að fíflast.

(Strákarnir hlæja en Katrínu stekkur ekki bros á vör)

Stjórnmálafræðingurinn: Jæja, gerum gott úr þessu og eldum saman.

Guðfræðingurinn vill helst að lessan hypji sig en segir ekki það sem hann hugsar heldur: Já við skulum reyna að sýna umburðarlyndi og láta guð um að dæma þegar þar að kemur (meinar það samt ekki).

Raunvísindamaðurinn: Katrín!

Katrín: Já!

Raunvísindamaðurinn: Viltu þína steik rare eða medium rare. Parapís (trommusóló með höndunum).

Listamaðurinn: Ég skýst á einhvern grænmetisstað og leyfi ykkur að kynnast (býr til gæsalappir með báðum höndum) ,,Lessunni”. En ég vil að hún sé hérna þegar að ég kem til baka svo að reynið að hegða ykkur eftir aldri. (Hleypur út og skilur Katrínu eftir).

Guðfræðingurinn forðast samskipti við Katrínu og byrjar að elda. En Katrín stendur inni í stofu að spjalla við pólitísku óvini sína (Raunvísindamanninn og Stjórnmálafræðinginn). Georg læðist aftan að Katrínu og truflar samtalið.

Georg: Fyrirgefðu Katrín, ég veit ekki hvort að Listamaðurinn hefur eitthvað talað um mig en ég vildi láta þig vita áður en ég ber fram spurninguna að ég hef ekki mikið vit á stjórnmálum eða hugtökum tengdum þeim svo að ég var að velta því fyrir mér hver er afstaða feminasista…

Katrín leiðréttir pirruð á meðan hinir brosa: Það kallast feminismi!

Georg: Já, fyrirgefðu hver er afstaða þeirra til kláms eins og þú sérð hérna í sjónvarpinu okkar?

Katrín horfir á sjónvarpið með hneykslan og viðbjóði og sér varla konuna fyrir mönnunum sem hún er umkringd og hamast á henni og segir hvössum tón: Við segjum að allt klám og einnig það að selja líkama sinn sé ofbeldi og nauðgun gagnvart konum og að í klámiðnaðnum og á hóruhúsum fari fram mansal sem verði að uppræta með því að banna þetta allt saman með hörðum viðurlögum gagnvart kaupanda!

Georg hneykslaður: Áhugavert…

Í húsið gengur tanaða vöðvafjallið Jonni með látum: Bleeeesssaðir strákar! Vóóó! Halló! Halló! Ég heiti Jonni og hvað heitir þú vinan?

Katrín trúir varla hvers konar steríótýpa var að ganga inn í húsið, þó að hún sé hugsanlega andstæð steríótýpa og segir eins og hún hafi engan áhuga á samskiptum: Ég heiti Katrín og ég er lesbía!

Jonni: Sæll! Töff!…

Jonni: Vóóó hvaða stunur eru þetta! (Lítur á sjónvarpið) Sæll! Tvær lellur að licka hvora aðra… Crazy!

(Katrín hristir hausinn)

Jonni mænir á skjáinn en heldur áfram: Hvað er annars títt? Hvað er verið að ræða um?

Georg glottir en segir alvarlegur: Hún Katrín, …var að segja okkur hvað klám og hverskyns hórskapur væri mikill glæpur og að það ætti að fangelsa og berja karlmenn sem notfærðu sér eymd kvenna í þessum bransa.

Jonni hissa: Say whaaaaaaat? Ertu ekki að gríííííínast? Við erum að tala um pioneer work elskan. Klámiðnaðurinn gefur leiðinlegu fólki nýjar hugmyndir í kynlífi og startar tískutrendum sem eru algjört möst.

Katrín mjög stíf og pirruð: Eins og hverju?

Jonni hlær: Eins og hverju, (hlær) eins og hverju? Hverjir heldur þú að hafi verið þeir fyrstu sem byrjuðu að raka á sér skapahárin? Þú mátt þakka fyrir það væna næst þegar að þú sleikir vinkonu þína að klámiðnaðurinn er til staðar. Hell yeah!

(Strákarnir hlæja að þessari vitleysu)

Katrín alvarleg: Ekki ýta undir þessa vitleysu með því að hlæja!

Raunvísindamaðurinn: Við tveir (bendir á Stjórnmálafræðinginn) verðum hins vegar að fá að rökræða við þig um klámiðnaðinn, þegar þú ert búinn að jafna þig á þessum fyrstu kynnum, næst þegar þú kemur í heimsókn.

Katrín glöð og ákveðin: Ég tek þessari áskorun og sé til þess að þið standið við hana.

Þá heyrist í Jonna: Úúú! Sjáið hvað þetta er velgert hjá stráknum (leikur eftir samfarahreyfingar).

Katrín, Stjórnmálafræðingurinn, Raunvísindamaðurinn og Georg færa sig yfir í eldhúsið og í sömu andrá kemur Listamaðurinn inn um dyrnar með kjúklingabaunir og grænmeti í poka. Guðfræðingurinn er búinn að matreiða fyrir restina en Jonni afþakkar mat og lætur vel fara um sig inni í stofu með sitt áhugaverða sjónvarpsefni svo að frygðarstunurnar óma inn í eldhús. Þetta kvöld var rétt að byrja en meira um rökræðurnar við matarborðið seinna.

Þrándur kveðjur í bili. Sjáumst.

Sú fyrsta… (saga eitt)

Komið þið sæl!

Þrándur heiti ég og er heimilisköttur í ónefndri Kommúnu í miðbæ Reykjarvíkur, en einnig sögumaður kvöldsins. Ég hafði komið mér vel fyrir á eldhúsborðinu sem var ennþá volgt eftir matinn og horfði inn í hálfdimma stofuna; það var fimmtudagur og koníakskvöld hjá strákunum.Rykug og velrispuð Ratpack vinylplata snarlaði á fóninum, íbúarnir sem heima voru (Heimspekingurinn/Listamaðurinn, Raunvísindamaðurinn Stjórnmálafræðingurinn og Guðfræðingurinn) með glas í eða við hendina og spjallandi um daginn og veginn við kertaljósið sem myndaði róandi skugga á veggina þegar að síðasti maðurinn heim þetta kvöldið rífur upp hurðina með látum, kveikir öll ljós, sveiflar höndunum nánast öskrandi þar sem hann gengur ákveðnum en ráðvilltum sporum inn í stofuna reiður, hneykslaður og skömmustulegur í senn.

Georg: ÞIÐ MUNUÐ ALDREI TRÚA ÞVÍ SEM KOM FYRIR MIG Í KVÖLD! AAH!

Listamaðurinn/Heimspekingurinn: Hvað? Hverju lentir þú í? (blæs frá sér sígarettureyk)

Georg: Ég og Soffia vorum að…

Stjórnmálafræðingurinn grípur inn í spenntur: Bíddu, bíddu. Hver er Soffía?

Georg ennþá æstur: Hver er Soffía? Hver er Soffía? Stelpan sem ég er búinn að vera með í næstum mánuð?

Stjórnmálafræðingurinn grípur aftur inn í: Úúú er það þessi ljóshærða og velvaxna sem þú ert engan veginn samboðinn?

Georg öskrar: Aahhh! Já, það er þessi sem ég ætti ekki að eiga nokkurn séns í. Ertu ánægður?

Listamaðurinn/Heimspekingurinn: Rólegur Georg. Áfram með söguna.

Georg dæsir: Já, ég og Soffía vorum á röltinu, nánar tiltekið vorum við komin rétt framhjá Þránni skóara og vorum að fara að beygja niður, að þið vitið, uhh Vegamótum þegar að þar birtist fremur skuggalegur náungi og þegar hann nálgast okkur rætist úr einhverju ógeðfelldu brosi á smettinu á honum og ég hélt hreinlega að þarna væri á ferðinni geðveikur maður að fara að ráðast á okkur. En svo horfir hann á Soffíu og segir með rámri röddu ,,Sæll félagi Soffía” og hún staðnæmist, sveiflar hægri hendi og segir ,,Sæll félagi Helgi”…

Stjórnmálafræðingurinn grípur inn í: Bíddu, stoppaðu aðeins félagi. Hvernig sveiflaði hún hendinni?

Georg ennþá pirraðri: Viltu leyfa mér að klára söguna? Ég kem að því á eftir.

 (þögn)

Georg aftur: Allavegana að þá spyr ég hana út í hver þetta hafi eiginlega verið en hún fer undan í flæmingi og segir með bros á vör að þetta hafi verið gamall félagi og ég var farinn að velta því fyrir mér hvort að Soffía ætti sér kannski einhverja forsögu í fíkniefnaheiminum eða hafi verið á Kleppi. En svo förum við og fáum okkur að borða og þaðan höldum við heim til hennar, þar sem hlutirnir áttu loksins að fara gerast…

Stjórnmálafræðingurinn grípur inn í brosandi: Bíddu eruð þið búin að vera saman í mánuð og ekkert búið að gerast?

Georg öskrar: Aahhh! Nei, nú er mér nóg boðið. Ég er hættur við þessa sögu.

Þeir allir í kór: Nei, common! Kláraðu söguna… Kláraðu söguna Georg!

Georg horfir á þá reiður og bíður eftir að þeir einbeiti sér að því að hlusta: Við erum sem sagt komin heim til hennar og þið vitið, … hlutirnir aðeins farnir af stað þegar að ég verð að bregða mér á klósettið. Þegar ég kem til baka kem ég aftan að henni þar sem hún er að horfa út um stofugluggann og byrja að kyssa hana á hálsinn og hún tekur mjög vel í það svo að ég ákvað að klæða hana úr peysunni á meðan. Þegar hún er komið úr peysunni og á þennan líka huggulega svarta brjóstahaldara að þá verður mér litið á bakið á henni… (stoppar hneykslaður) og þá blasir við þessi líka risastóri nasistafáni…

Allir taka bakföll í sófanum og springa úr hlátri nema Georg, sem stendur rauður, þrútinn og skömmustulegur á miðju stofugólfinu

Guðfræðingurinn: Almáttugur hehe. Þetta nöðrukyn, þú skalt vara þig á kvenfólki Georg og muna að þekkja óvininn betur en sjálfan þig.

Listamaðurinn: En varstu ekki búinn að sjá þetta Tattoo áður?

Georg reiður: Nei, auðvitað ekki annars hefði ég aldrei hitt hana aftur. Ég vissi bara að hún var með tattoo á hægri hendinni af einhverjum manni sem hún dáði mikið og talaði ítrekað um.

Stjórnmálafræðingurinn hlæjandi: Og manstu ekki hvað hann heitir?

Georg: Þetta var að ég held þýskur heimspekingur… eða allavegana var hún í heimspeki í smá tíma. Minnir að hann hafi heitið Gobble eða Göbsel eða eitthvað álíka.

Stjórnmálafræðingurinn spenntur: Þú átt þó ekki við Göbbels?

Georg: Jú, það er maðurinn.

Allir springa úr hlátri nema Georg sem er orðlaus og hissa.

Stjórnmálafræðingurinn: Hahaha! Göbbels. Áróðursmeistari þriðja ríkisins. Ertu að segja mér að þú vitir ekki hver hann var.

Georg reiður, skömmustulegur og öskrandi: Nei, ég var veikur þegar farið var yfir sögu nasista í Iðnskólanum og svo hef ég engan áhuga á einhverju sem gerðist fyrir svo löngu og kemur okkur ekkert við í dag.

Stjórnmálafræðingurinn hlæjandi: Eins og þessi dæmisaga sýnir klárlega.

Guðfræðingurinn dæsir: Þessi stúlka er örugglega öfgafullur trúleysingi. Þið vitið að helvítið hann Hitler var trúlaus og slátraði milljónum manna.

Raunvísindamaðurinn: Byrjar þú enn eina ferðina á þessu rugli. Hitler var kaþólskur og mörg helstu symbol nasismans voru krossar auk þess sem Hitler sjálfur notaði trúarlegar réttlætingar fyrir helförinni, uhh eins og þátttöku Gyðinga í dauða Krists. Síðan…

(Georg baðar út höndunum á þessum sama tíma hissa og hneykslaður og bíður eftir því að fá aftur orðið, en þeir kumpánar eru ekki hættir.)

Guðfræðingurinn grípur pirraður inn í: Þvættingur! Hann var argasti trúleysingi. Allir grimmustu harðstjórar 20. aldarinnar voru trúleysingjar.

Raunvísindamaðurinn dæsir: Ooo byrjarðu enn og aftur! OK en jafnvel þó að þeir hefðu allir verið trúlausir, sem þeir voru EKKI… að þá frömdu þeir ekki voðaverk sín í nafni trúleysis frekar en þeir frömdu glæpina í nafni þess að þeir voru allir dökkhærðir. Kaþólska kirkjan hins vegar og hið kristna samfélag hefur…

Heimspekingurinn grípur inn í rökræðurnar: Strákar, strákar, strákar. Hleypiði Georg aftur að með söguna sína.

Georg fjólublár af reiði og hneykslan: Thank you very much… hikar uhh

Heimspekingurinn: Hvað gerðist svo?…

Heimspekingurinn sér að Georg hikar meira og segir: …Þú sást nasistafánann á bakinu og hvað svo?

Georg skömmstulegur og talar lágt: Og hvað svo? Ég spurði hana út í þetta risavaxna tattoo og þá hló hún og sagðist hafa haldið að ég vissi hvaða skoðanir hún hefði. Hún væri nasisti og að þessi Helgi væri félagi hennar í leynilegum og rótttækum samtökum nasista á Íslandi… Núna skil ég hvers vegna hún fussaði og sveiaði þegar að ég vildi fara með hana á Asíu eða einhvern af þessum veitingarstöðum í eigu nýbúa hérna í grenndinni.

Hinir brosa og hrista höfuðið

(smá þögn)

Guðfræðingurinn: En samviska þín og þitt kristilega uppeldi hefur sem sagt leitt þig á brott frá þessum trúlausa nasista og því stendur þú hér eða hvað?

(Raunvísindamaðurinn ranghvolfir augunum og dæsir og Heimspekingurinn flissar innra með sér yfir þessum innihaldslausu árásum Guðfræðingsins)

Georg enn skömmustulegri: Nei, ekki alveg…

Heimspekingurinn/ Listamaðurinn: Nú hvað þá Georg minn?

Georg: Ég var auðvitað eins og þið sjáið núna mjög reiður og hneysklaður… en á sama tíma var ég líka virkilega graður…

Þeir allir: NEEEEIII!!!

Georg: Hvað? Ég er búinn að vera með þessari stelpu í mánuð, búinn að bjóða henni út að borða, í bíó og gefa henni hálsmen og á ég að fórna því öllu og fá ekkert í staðinn bara vegna þess að hún er nasisti? Vitið þið hvað það er langt síðan að ég hef stundað kynlíf?

Guðfræðingurinn signir sig: Almáttugur, Georg! Hvernig gastu látið undan svo djöfullegri freistingu, kristinn maðurinn? (Hnussar) Ógiftur og það með skítugum trúlausum nasista. Ég bið til Guðs að smokkurinn hafi haldið…

Georg öskrar: Fuck ég var ekki með smokk! (leggst á hnéin, lokar augum, spennir greipar og segir) Góði guð almáttugur…

Raunvísindamaðurinn grípur inn í: Ég get nánast fullyrt það að þessi ímyndaði vinur þinn er ekki að hlusta. Þú verður að treysta á skynsemi nasistans, að hún taki pilluna eða sé nógu skynsöm til að fara í fóstureyðingu ef allt fer á versta veg. Það er nánast að maður taki trú og biðji fyrir að svo heimskur maður og svo fordómafull kona eignist ekki saman barn og þá á ég við bæði erfðalega og uppeldislega. Getið þið ímyndað ykkur útkomuna?

Hinir standa hugsi og skilja eftir þögnina eina, sötra sitt glas (nema Georg sem sturtar í sig koníaki) uns Guðfræðingurinn og Raunvísindamaðurinn hella sér út í næstu trúarlegu rökræðu og út frá henni sofnaði ég á eldhúsborðinu og kveð ykkur því í bili.

Ykkar Þrándur.

Komið þið sæl!

Guðfræðingurinn var ókominn en restin af íbúum kommúnunar sat við eldhúsborðið og auk þeirra Jonni á þessu fallega en kalda vorkvöldi í enda mars. Íbúarnir höfðu steikt sér kjötbollur úr farsi og að sjálfsögðu var meðlætið kartöflumús og ísköld mjólk þömbuð með – Jonni hristi hins vegar höfuðið hneykslaður og hélt áfram með sitt próteinbætta Boost. Menn voru að ræða meint getuleysi Samfylkingarinnar þar sem Heimspekingurinn, Georg og Jonni bölvuðu henni en Raunvísindamaðurinn og Stjórnmálafræðingurinn reyndu af veikum mætti að verja hana, þeim var að lokum bjargað frá röksemdarrothöggi þegar að Guðfræðingurinn gekk aldrei þessu vant glaður í hús, með illkvittið glott á andlitinu og steppdansaði í átt til þeirra.

Guðfræðingurinn tekur nett twist fyrir framan þá: Jæja, hvernig lýst ykkur á?

Georg: Mér fannst þetta ágætur steppdans, en ekkert sérstakt twist. Jonni æfði einu sinni dans og gæti gert þetta miklu betur.

Jonni öskrar reiður: Þegiðu maður! Þú varst búinn að lofa að minnast ekki á þetta!

Guðfræðingurinn enn glaður: Nei, ekki dansinn. Skórnir? Hvernig lýst ykkur á skónna?

(Strákarnir horfa á eldgamla, lúna svarta spariskó)

Heimspekingurinn ekkert sérstaklega hugfanginn: Þeir eru allt í lagi. Ert þú byrjaður að versla í Spútnik? Þá er nú tími til kominn að hætta því.

Guðfræðingurinn: Nei, þessa skó fékk ég gefins. Ákveðinn maður sem fór fram á nafnleynd (áhersluþögn og svo æsingur)… rændi þessum skóm af Gljúfrasteini!

Heimspekingurinn reiður: Ha?

Guðfræðingurinn hlær: Já, þetta eru skórnir sem Halldór Laxness var í þegar hann tók á móti Nóbelsverðlaununum.

Stjórnmálafræðingurinn hlær með: Djöfulsins kjaftæði! Hver er þessi maður og af hverju notaði hann þá ekki sjálfur?

Guðfræðingurinn: Ég get ekki sagt ykkur það, ég gaf loforð. Hann gat ekki notað skónna því að þeir voru alltof litlir á hann, en ég er með mynd til að sanna þetta.

(Guðfræðingurinn dregur upp mynd af Nóbelsskáldinu þar sem hann situr kátur með plaggið umkringdur ungum meyjum. Drengirnir rýna vel og lengi á myndina og sitt sýnist hverjum)

Heimspekingurinn reiður en óviss: Þetta eru ekki sömu skór.

Raunvísindamaðurinn: Ég skal ekki fullyrða um það, en þeir eru ansi líkir.

Stjórnmálafræðingurinn: Já, svei mér þá ef að þetta eru ekki sömu skórnir.

Jonni kinkar kolli með fullan mun af Boost-i

Georg handviss: Já, þetta eru sömu skór. Það er ekki hægt að neita því.

Guðfræðingurinn ánægður: Önnur breyta sem skiptir höfuðmáli er að ég og skáldið notum sama skónúmer.

Heimspekingurinn sættir sig við raunveruleikann og reiðist enn meira: Ég get svo svarið það að ég mun hringja upp á Gljúfrastein og benda þeim á þetta og hvar þig er að finna ef þú skilar þeim ekki! Hvað varð um kristilegt siðgæði og boðorðin, þú kannski stalst ekki þessum skóm en það er skylda þín að skila þeim – þetta eru menningarverðmæti.

Guðfræðingurinn veit að þetta er rétt en ætlar sér ekki að skila þeim: Almáttugur! Það er ekki eins og einhver sakni þessa pars. Hann hefur pottþétt fengið pening fyrir þessum skóm úr blóðugum Moskvusjóði hvort sem er.

Stjórnmálafræðingurinn: Ætli Hannes Hólmsteinn hafi tekið þá ófrjálsri hendi, það væri þá ekki í fyrsta skiptið sem hann stæli af Halldóri.

(Raunvísindamaðurinn, Georg og Guðfræðingurinn hlæja)

Heimspekingnum stekkur ekki bros: Þetta er einhver helvítis hægri sinnaður andskoti sem hefur hnuplað skónum, eins og öllu öðru í þessu þjóðfélagi. Ótrúlegt hvað þessir hægri menn eru alltaf að verja eignarréttinn en eru svo fyrstir til að grípa allt ófrjálsri hendi ef tækifæri gefst – siðblindir andskotar.

Stjórnmálafræðingurinn í 5 aura bröndurum: Það má að minnsta kosti tala um hina ósýnilegu hendi í þessu tilfelli, ef við gerum ráð fyrir því að þetta hafi verið hægri maður.

Heimspekingurinn reiður: Auðvitað var þetta hægri maður! Hvaða vinstri menn þekkir þessi meinti Guðsmaður (bendir á Guðfræðinginn) fyrir utan þennan vinahóp? Þetta eru allt Sjálfstæðisplebbar og eða íhaldssamir Guðfræðingar.

Jonni hneykslaður: Hvaða voða læti eru þetta. Þetta eru ljótir skór og Laxness var alveg Fuck leiðinlegur gæji. Hafið þið lesið Brekkukotsannál? Leiðindidauðans@ógeð.is/andlegnauðgun

Georg sammála: Já, mér hefur aldrei tekist að lesa meira en einn kafla í nokkurri bók eftir hann.

Heimspekingurinn pirraður: Nefnið einhvern annan íslenskan höfund sem kemst nálægt því að eiga skilið að vera nefndur í sömu andrá og þessi mikli meistari.

Georg: Hvað með Arnald Indriðason?

Jonni: …eða Þorgrím Þráinsson, toppbækur um topp fyrirmyndir!

Stjórnmálafræðingurinn hlæjandi: Hvað með ljóðskáldið Daða?

Raunvísindamaðurinn hissa: Hver er það?

Stjórnmálafræðingurinn: Maðurinn sem lifir á jarðaberjasjeik…

Raunvísindamaðurinn hlæjandi: Já alveg rétt! (með aumingjaröddu) ,,É, Ég vil bara jarðaberjasjeik”… Hvað með Þórberg?

Heimspekingurinn tekur upp símann: Já, OK kannski Þórbergur.

Guðfræðingurinn hissa og reiður: Bíddu hvert ertu að hringja? Ertu að grínast ætlar þú að hringja og klaga mig eins og lítil smástelpa!?!

Heimspekingurinn nær ekki sambandi: Nei, ég ætla að hringja í Jósep.

Raunvísindamaðurinn: Hver er Jósep?

Heimspekingurinn: Hann er Stalínisti sem var með mér í heimspeki.

Stjórnmálafræðingurinn: Ha, Stalínisti? Hvað ertu farinn að hanga inni á elliheimilum til að finna félagskap með sambærilegar lífsskoðanir?

Heimspekingurinn hneykslaður: Nei, hann er tveimur árum yngri og…

Stjórnmálafræðingurinn hlær hissa: Ha, tveimur árum yngri? Er hann…

Heimspekingurinn grípur inn í pirraður: Já hann er tveimur árum yngri og af þriðju kynslóð Stalínista, bæði pabbi hans og afi eru Stalínistar og Jósep er skírður í höfuðið á georgíska stálmanninum!

(Raunvísindamaðurinn, Guðfræðingurinn og Stjórnmálafræðingurinn missa sig)

Guðfræðingurinn: Og hvers vegna ætlar þú að hringja í hann? Þið ætlið kannski að setja saman fimm ára áætlun til að ná skónum til baka?

Heimspekingurinn: Nei, Jósep er eldheitur áhugamaður um Laxness og hann gæti vitað eitthvað um þessa skó… (bíður átekta) Andskotinn hann svarar ekki!

Stjórnmálafræðingurinn ennþá skemmt: Jósep, eftir Joseph Stalin. Ótrúlegt að svo kynþokkafullur maður hafi getað orðið slíkur harðstjóri. Hvað segið þið um að við söfnum allir mottu og köllum okkur syni Stalins?

Jonni rekur upp íþróttaöskur og biður um high five:Wooohúú! Djöfull er ég til í það að safna mottu. Wooouuuyeah

Georg hristir höfuðið og bendir á höfuðið á sér: Lít ég út fyrir að vera haldinn dauðaósk? Hálf sköllóttur maður með yfirvaraskegg, af hverju ekki að ganga þá alla leið og láta gelda sig?

Heimspekingurinn: Halló! Erum við ekki að missa að mikilvægasta punktinum? Ætlar enginn að standa með mér í því að stöðva þennan siðblinda trúmann í því að halda áfram að eyðileggja menningarverðmæti landsins.

Jonni og Georg horfa áhugalausir hvorn á annan og virðist slétt sama.

Raunvísindamaðurinn: Eins og þið vitið er ég ekki maður sem ber tilfinningar mínar sérstaklega á borð, en ég verð að lýsa yfir stuðningi við Heimspekinginn í þessu máli eins skemmtilegt og það er að hafa söguna hér fyrir framan sig.

Stjórnmálafræðingurinn: Já, ég er hræddur um að þú (horfir á Guðfræðinginn) yrðir ekki parsáttur ef einhver af okkur kæmi heim í hempu biskupsins.

Guðfræðingurinn sammála en engu að síður ósáttur klæðir sig úr skónum og segir hnípinn: Já, hver maður verður að gera skyldu sína, en ég vildi óska þess að ég gæti haldið skónum – en svona er víst lífið.

Stjórnmálafræðingurinn: Já við tökum samt mynd af þér í skónum og með myndina (sönnunargagnið) á þér, svo að þú eigir þessa sögu til að segja seinna meir. Síðan er reyndar spurning hvernig við skilum skónum af okkur.

Heimspekingurinn: Ég er með hugmynd sem gæti látið þessa sögu lifa mun betra lífi.

Drengirnir hlusta átekta

Heimspekingurinn: Við setjum skónna í skókassa ásamt myndinni og skrifum örlítið bréf sem fylgir með. Pökkum þessu inn og sendum Megasi afmælisgjöf núna í byrjun apríl.

Drengirnir kætast mjög og samþykkja hugmyndina.

Guðfræðingurinn: Já, það yrði viðeigandi og væntanlega fréttnæmt ef að frændinn færi með skónna upp á Gljúfrastein. Sagan gæti ekki átt fallegri endi.

Drengirnir hófust handa við að útbúa þessa afmælisgjöf/gjörning á sem fallegastan og smekklegastan hátt og hlustuðu á tilvonandi afmælisbarn syngja texta frænda síns ,,Hvert örstutt spor”…

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
hvert andartak er tafðir þú hjá mér
var sólskinsstund og sæludraumur hár,
minn sáttmáli við guð um þúsund ár.
Hvað jafnast á við andardráttinn þinn?
Hve öll sú gleði er fyrr naut hugur minn
er orðin hljómlaus utangátta og tóm
hjá undrinu að heyra þennan róm,

hjá undri því, að líta lítinn fót
í litlum skóm, og vita að heimsins grjót
svo hart og sárt er honum fjarri enn,
og heimsins ráð sem brugga vondir menn,
já vita eitthvað anda hér á jörð
er ofar standi minni þakkargjörð
í stundareilífð eina sumarnótt.
Ó alheimsljós, ó mynd sem hverfur skjótt.

(Texti: Halldór K. Laxness)

Þrándur kveður í bili, sofið rótt.